Bílaleigur

Fimmtudaginn 19. janúar 2006, kl. 14:15:08 (3340)


132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka ábendingar hv. þingmanna. Fyrst vil ég segja, varðandi það sem kom fram í ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að verkefni Vegagerðarinnar eru margvísleg. Þegar við vorum að semja frumvarpið veltum við því fyrir okkur hvort eitthvert annað fyrirkomulag væri betra en niðurstaðan varð þessi. Við hugleiddum hvort eðlilegt væri að Ferðamálastofa sæi um útgáfu leyfa vegna bílaleigna en það var ekki talið heppilegt. Þarna er ákveðin starfsemi í gangi hjá Vegagerðinni, svo sem eftirlit með leigubílum, eftirlit með flutningabílum, bæði fólksflutningabílum og þungaflutningabílum, þannig að þar er reynsla og þekking á þessu eftirliti. En ég tel það af hinu góða og mjög gagnlegt fyrir nefndina að fara yfir þetta atriði og kynna sér rækilega hversu umfangsmikil þessi stjórnsýslustarfsemi Vegagerðarinnar er. Það er mitt mat að við þurfum að gæta þess að dreifa stjórnsýslunni ekki út um allar koppagrundir með mjög mörgum örstofnunum. Við eigum að reyna að skipuleggja hlutina á þann veg að ákveðin verkefni falli undir stofnanir sem fást við svipuð verkefni.

Hvað varðar hækkun á gjaldinu þá var farið mjög vandlega yfir það í ráðuneytinu. Okkur var alveg ljóst að þessari breytingu fylgir eftirlitsvinna sem fellur á Vegagerðina, ekki verður undan því vikist. Við teljum að ekki sé óyfirstíganlegt að greiða þessa upphæð til fimm ára og teljum það algerlega nauðsynlegt, að öðrum kosti er um að ræða skerðingu á fjárveitingum til annarra verkefna Vegagerðarinnar. Það varð því niðurstaðan að áætlaður raunkostnaður yrði innheimtur af leyfishöfum.

Ég tel fullkomlega eðlilegt að nefndin kalli eftir upplýsingum og fari mjög vandlega yfir málin. Ef eitthvað kæmi upp sem gæti leitt til þess að nefndin sæi leiðir til lækkunar hefði ég ekki á móti því.

Hvað varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur þá lít ég svo á að starfsstöðvar bílaleigufyrirtækjanna, hvar sem þær eru, þurfi að uppfylla allar þær reglur sem settar eru í lögum. Það er óhjákvæmilegt því annars mundu fyrirtækin dreifa stöðvunum út um allar jarðir, vera með lítil útibú og mjög litlar starfsstöðvar til þess að losa sig við eftirlit. Sem betur fer hefur ferðamönnum fjölgað ört og þeir nota bílaleigubílana mjög mikið. Þetta er því geysilega mikilvæg starfsemi fyrir ferðaþjónustuna. Tekin var ákvörðun um að lækka gjöld á bílaleigubílum og það hefur aukið þessa starfsemi og gert hana hagkvæmari. Rekstur bílaleigufyrirtækja hefur gengið betur og það er meira öryggi fyrir ferðamenn að eiga í viðskiptum við þau.

Hvað varðar þriggja vikna markið þá er það einungis spurning um að hafa hlutina með þeim hætti að ríkissjóður missi málið ekki í þann farveg að fjölskyldur landsins skipti á milli sín bílaleigubílunum og ríkissjóður verði af öllum tekjum af innflutningsgjöldum. Mjög fáir ferðamenn eru hér lengur en þrjár vikur að því er talið er. En þetta er eitt af því sem ég tel að nefndin eigi að fara vandlega yfir og skoða hvort þetta sé hið eðlilega mark. Ég hef ekkert á móti því. En vegna þess að verið er að fella niður gjöldin eru þessi mörk sett. Engu að síður er opnað á að bílaleigurnar geti þjónað einstaklingum og fjölskyldum með útleigu á bílum vegna sérstakra aðstæðna, t.d. ef bílar bila o.s.frv. Það sé útleigustarfsemi með bíla sem ekki hafa notið niðurfellingar gjalda og þá leiga til lengri tíma.

Þetta eru þau atriði sem ég taldi eðlilegt að kæmu fram en að öðru leyti þakka ég fyrir þær ábendingar sem hér hafa komið fram og tel að nefndin taki þær upp.