Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Fimmtudaginn 19. janúar 2006, kl. 16:38:06 (3369)


132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

86. mál
[16:38]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel nauðsynlegt að opna á það að yfirvöld hafi víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða þegar svona vandamál kemur upp. Það sem fyrir mér vakir með þessu frumvarpi er í raun að opna fyrir heimildir á það í lagatexta að umhverfisráðherra geti hreinlega sett reglugerð sem bannar kanínuhald á svona stöðum, að bannað sé að vera með kanínur á fuglaeyjum umhverfis landið eins og Vestmannaeyjum, einmitt með tilvísun til þess að þessi dýr, ef þau sleppa út — ég tel að það sé fyrir slysni. Ég er ekki að segja að fólk sé að gera þetta viljandi — geta skapað mjög mikið vandamál, kostnaðarsamt vandamál. Ég veit að Vestmanneyingar hafa orðið fyrir töluverðum kostnaði við að halda þessum dýrum í skefjum. Það kostar mikið að gera út veiðimenn til að sitja fyrir þessum dýrum og reyna að ná þeim. Rannsóknir sem gerðar voru í Vestmannaeyjum og leiddu í ljós að þessi dýr hafa valdið miklu tjóni kosta líka peninga. Þeim peningum hefði verið betur varið í að stunda rannsóknir á lundanum eða öðrum tegundum svartfugls í Vestmannaeyjum eða öðrum rannsóknum á náttúrufari í Eyjum. Við eigum ekki að þurfa að eyða tíma okkar, orku og peningum í að eltast við innflutt gæludýr eða stunda rannsóknir á lífsháttum þeirra. Við eigum miklu frekar að reyna að semja eðlilegar og skilvirkar reglur sem gera það að verkum að komið verði í veg fyrir að svona dýr séu þar sem þau eiga ekki heima og geta valdið miklu tjóni. Hér er ég fyrst og fremst að hugsa um fuglabyggðir.

Hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi Öskjuhlíðina. Þar eru villtar kanínur. Það er alveg rétt. En þar er ekkert fuglavarp. Vel má vera, og ég get svo sem tekið undir það, að kanínur eigi heldur ekki heima þar. Það er trú mín og sannfæring að innflutt aðskotadýr eigi ekki neitt erindi í íslenska náttúru. Minkurinn er gott dæmi um að komið er kvikindi í okkar fánu sem aldrei hefði átt að koma en hefur valdið miklu tjóni.