Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga

Fimmtudaginn 19. janúar 2006, kl. 17:23:23 (3379)


132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:23]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við allt sem kom fram hjá ágætum hv. þingmanni. Ég met það svo að hann sé sammála þessu. Við vitum eins og er og það þarf ekki að ræða það neitt að við höfum staðið fyrir mestu frelsisvæðingu í íslensku samfélagi sem sést hefur frá upphafi, a.m.k. frá þeim tíma sem við berum okkur saman við. Það er alveg sama hvaða mælistiku við setjum á það, niðurstaðan er sú sama.

Hv. þingmaður nefndi það að líka þyrfti að huga að öðrum þáttum í samfélaginu, og það er alveg rétt. En af því að hann nefndi Símann þá vildi ég bara vísa í það hve sú sala var vel heppnuð. Ég veit að hann hefur áhuga á málefnum landsbyggðarinnar og ef menn fara yfir það í hvað þessir fjármunir eru nýttir, þá eru þeir náttúrlega nýttir til að greiða niður skuldir, síðan fara gríðarlegir fjármunir í vegaframkvæmdir, sjúkrahús, Landhelgisgæsluna, nýsköpun í íslensku atvinnulífi, í fjarskiptasjóð til að bæta fjarskipti á landsbyggðinni, í framkvæmdir í þágu geðfatlaðra og nýbyggingu fyrir Stofnun íslenskra fræða. Þetta er svona skólabókardæmi um hve hér er skynsamlega að verki staðið.

Síðan vil ég nefna út af sorphirðuumræðunni að það eru bara Reykjavíkurborg og eitt annað sveitarfélag í hópi hina stærri sem enn eru með þetta á sínum vegum. En ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann talaði um að við yrðum að hafa störf fyrir þá sem standa höllum fæti. Ég tel það vera verkefni okkar sem hér erum og líka þeirra sem eru í sveitarstjórnum og annars staðar að finna fleti á því, og það er sérverkefni okkar að sjá til þess að þessir aðilar sem hafa starfað ekki bara hjá opinberum aðilum heldur líka hjá einkaaðilum í gegnum tíðina og eiga kannski erfitt með að fá störf núna, gleymist ekki og geti áfram stundað störf öllum til góðs. (Forseti hringir.) Það eru lokaorð mín í þessari umræðu.