Umræða um störf þingsins

Föstudaginn 20. janúar 2006, kl. 11:14:05 (3405)


132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:14]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ekki veit ég hvort það er föstudagur sem leggst svona illa í hv. stjórnarandstöðu eða hvort einhver bóndabeygja á bóndadag leggst illa í hv. stjórnarandstöðu því að nú eru liðnar bráðum 45 mínútur frá því að hér átti að hefjast fundur með boðaðri dagskrá og sér ekki enn fyrir endann á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Hún byrjar mjög einkennilega um störf þingsins og það er rétt að endurtaka það, um störf þingsins. Um hvað fjölluðu svo ræðurnar um störf þingsins? Þær fjölluðu um loðnu, loðnu í nútíð og framtíð (ÖJ: Um hvað fjallar þessi ræða?) og fortíð, um æti og það var meðal annars upplýst það afskaplega merkilega að loðnan væri undirstaða í fæðu annarra fiska, rétt eins og við höfum aldrei heyrt það hér áður. (Gripið fram í.) Það var auglýst eftir því hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði miklar eða litlar áhyggjur af loðnu og allt er þetta undir liðnum um störf þingsins. Þegar síðan hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kemur hér og fjallar um störf þingsins, það sem snertir þingstörf, meðal annars störf menntamálanefndar, þá ætlar allt vitlaust að verða. (Gripið fram í: Er þetta ekki ...)

Ég vil aðeins staðfesta það, frú forseti, að á fundi í menntamálanefnd í morgun lýsti hv. formaður nefndarinnar, Sigurður Kári Kristjánsson, því yfir að hann mundi taka það mál upp sem hér hefur verið til umræðu, nefnilega um meðferð þessara gagna. (KolH: Það er rangt. Því var ekki lýst yfir.) Hann nefndi það, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Nei.) Sigurður Kári Kristjánsson nefndi (Gripið fram í: Hættu!) það hér í morgun. (Gripið fram í: Hættu ...) Enda kom hann hér upp og fjallaði (Gripið fram í.) um þetta undir liðnum um störf þingsins. (Gripið fram í: Hættu þessu ...)

Það vekur hins vegar athygli, frú forseti, að þegar þetta mál um þau gögn sem liggja fyrir frá ESA og þau koma inn á borð nefndarinnar, ekki síst í ljósi þeirra miklu upphlaupa sem hafa orðið síðustu daga, þá bara hvarf öll stjórnarandstaðan og af fjórum eða fimm fulltrúum sat einn eftir. Það hefur svo komið í ljós af hverju einn hv. þingmanna þurfti að bregða sér frá. Af því að hann þurfti nefnilega að senda frá sér fréttatilkynningu um þetta mál, því hún birtist skömmu síðar á mbl.is.

Frú forseti. Er ekki orðið tímabært að snúa sér að þeirri dagskrá sem auglýst var þar sem stórt mál er til umfjöllunar, nefnilega kjaramál? Eigum við ekki að snúa okkur að því, virðulegi forseti?