Umræða um störf þingsins

Föstudaginn 20. janúar 2006, kl. 11:25:22 (3412)


132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:25]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fundarstjórn forseta og ég kem hér upp öðru sinni undir þeim lið. Það sem gerir það að verkum að ég sé mig tilneyddan til að koma hér upp öðru sinni eru ummæli hv. þm. Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, þar sem hann gerði, að mér fannst, mjög lítið úr rétti þingmanna til að notfæra sér liðinn umræða um störf þingsins til að taka upp málefni sem brenna bæði á þingmönnum og á þjóðinni. Í máli mínu áðan fór ég yfir forsendur þess að ég ákvað að taka þetta tiltekna mál upp undir liðnum um störf þingsins og benti hér á skyldur og ábyrgð þingmanna stjórnarflokkanna, ráðherra í ríkisstjórn Íslands og hæstv. sjávarútvegsráðherra í því máli sem ég tók til umræðu vegna þess að hér var um að ræða málefni sem varðar pólitískar ákvarðanir, stjórnvaldsákvarðanir um nýtingu á þessum tiltekna fiskstofni.

Mér finnst fullkomlega réttlætanlegt að gera þetta með þessum hætti. Í lok máls míns, eftir að hafa farið yfir málið í stuttu máli, á þeim mínútum sem ég hafði til umráða beindi ég ákveðnum spurningum til hæstv. ráðherra um hans pólitísku ákvarðanir sem hann síðan svaraði. Mér finnst það fyllilega réttlætanlegt að þetta sé gert undir liðnum um störf þingsins en við erum hér að ræða fundarstjórn forseta.

Ég vil því nota tækifærið til að spyrja hæstv. forseta sem hér stýrir þingfundi hvort það sé svo að þetta tiltekna atriði sem ég tók hér upp undir liðnum umræður um störf þingsins hafi að mati forseta ekki átt rétt á sér, hvort forseti sé sammála þingflokksformanni Framsóknarflokksins hvað það varðar að liðurinn umræður um störf þingsins eigi í raun og veru bara að fjalla um fundarstjórn og það sem gerist hér í þingsalnum ef svo má segja og kannski einhver tæknileg útfærsluatriði á því hvernig vinnutilhögun er hagað í þingnefndum. Það væri mjög áhugavert að fá heyra þennan úrskurð hér og nú strax.

Það væri líka mjög áhugavert að heyra eitthvað um þetta mál frá formanni Framsóknarflokksins, hvort hann sé sammála áliti þingflokksformanns síns hvað þetta varðar.