Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 16:08:44 (3497)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:08]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa spurningu. Við erum greinilega sömu skoðunar varðandi Rás 2. Það ákvæði sem um ræðir er lágmarksákvæði, við teljum rétt að það verði a.m.k. að vera ein hljóðvarpsrás og a.m.k. ein sjónvarpsrás sem Ríkisútvarpið þarf að halda úti. En síðan látum við það öðrum eftir — og það er einmitt ekki okkar, hvorki menntamálaráðherra né þingsins að hlutast til um það — að ákveða hversu margar rásir eiga að vera, hvort það eiga að vera sjö íþróttarásir og tíu klassískar rásir í útvarpinu. Það á fagleg stjórn Ríkisútvarpsins að sjá um, rekstrarleg stjórnun.

Ég vil aftur á móti undirstrika að Ríkisútvarpið hefur með Rás 2 sýnt það og sannað að mínu mati að það hefur staðið undir menningarlegu hlutverki sínu. Þar höfum við fengið að hlusta sérstaklega á íslenska tónlist, nýja tónlist sem við alla jafna náum ekki að heyra á öðrum rásum þannig að það má segja að Rás 2 sé rásin fyrir hina nýju og ungu tónlist.