Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 16:45:35 (3511)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þá komið fram. Samfylkingin er þeirrar skoðunar að breyta eigi Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. Það kom reyndar fram í fréttum Ríkisútvarpsins núna um helgina að rekstrarformið væri í sjálfu sér ekkert sáluhjálparatriði, ef ég man rétt, en þau ummæli voru látin falla af formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. En það er þá komið fram hjá hv. þingmanni og helsta talsmanni Samfylkingarinnar í málefnum Ríkisútvarpsins að það er stefna Samfylkingarinnar að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun.

Það vakti hins vegar athygli mína í því sambandi að hv. þm. Mörður Árnason vék ekkert að því í ræðu sinni í fyrsta lagi að þetta væri stefna Samfylkingarinnar og í öðru lagi vék hv. þingmaður ekkert að því hvað það rekstrarform, þ.e. sjálfseignarstofnunarformið, hefur umfram hlutafélagaformið. Því væri rétt að spyrja hv. þingmann: Hvað er það í sjálfseignarstofnunarforminu sem er betra en hlutafélagaformið þegar kemur að rekstri svona stofnunar? Í framhaldi af því spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera þannig að þegar menn fara út í rekstur, hvort sem það er á fjölmiðli eða öðru, þá hópast menn niður á hlutafélagaskrá og stofna hlutafélag eða einkahlutafélag utan um rekstur sinn? Af hverju í ósköpunum skyldi sjálfseignarstofnunarformið ekki njóta meiri vinsælda en raun ber vitni fyrst Samfylkingin telur að það rekstrarform sé miklu betra og hentugra í rekstri á fyrirtækjum, eins og (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið óneitanlega er, en hlutafélagaformið?