Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 17:23:44 (3520)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:23]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að skilja þessi orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð líti þannig á að það sé rétt að halda í það ástand sem nú ríkir hjá Ríkisútvarpinu, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð líti þannig á að rekstrarfyrirkomulag og rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins eigi að vera óbreytt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson getur leiðrétt mig ef ég hef misskilið hann en ég lít þannig á og hef skilið hann svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð styðji óbreytt ástand, sem er mjög sérstakt í ljósi þess sem fram hefur komið, ekki bara frá einum starfsmanni Ríkisútvarpsins heldur frá lykilmanni í rekstri þess, þ.e. frá útvarpsstjóranum sjálfum sem rekur þetta batterí. Þetta er í sjálfu sér merkileg yfirlýsing frá hv. þingmanni og ég lít þá svo á að hann sé að enduróma stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað þetta varðar.

Síðan vék hv. þingmaður að öðru. Hann agnúast mjög út í það að með hinu nýja frumvarpi sé verið að veita útvarpsstjóra auknar heimildir til að ráða menn og reka og hafði miklar áhyggjur af því að einhverjir starfsmenn Ríkisútvarpsins hf. yrðu reknir og það hljóðalaust. Hvað felst í þessum orðum? Hvernig í ósköpunum vill hv. þingmaður að starfsmannamálum hjá Ríkisútvarpinu verði háttað? Er hv. þingmaður að leggja það til að þeir starfsmenn sem þangað eru ráðnir verði æviráðnir? Að yfirmenn í þessu fyrirtæki, sem er fyrirtæki eins og öll önnur, hafi ekki heimild til að segja fólki upp störfum, að Ríkisútvarpið eigi eitt fyrirtækja þurfi að sitja uppi með starfsmenn (Forseti hringir.) sem hugsanlega eru ekki starfi sínu vaxnir og sinna ekki störfum sínum. Hvað er hv. þingmaður að (Forseti hringir.) leggja til? Er hann að leggja til æviráðningar eða hvað meinar hann með þessu?