Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 17:26:24 (3522)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alltaf að koma betur og betur í ljós. Þetta er mergurinn málsins að það verði auðveldað að reka fólk. (Gripið fram í.) Það er langt síðan æviráðningar voru numdar úr gildi, það eru ár og dagar síðan það var gert.

Við höfum lagt fram frumvarp um breytta stjórnsýslu Ríkisútvarpsins þar sem við leggjum til ýmsar breytingar sem við teljum að verði til þess að stofnunin verði rekin á markvissari hátt. En við gerum það ekki með því að færa öll völd í hendur eins manns heldur færum við völdin í hendur fleira fólki og auðveldum aðkomu fulltrúa starfsmanna að stjórnsýslunni. Við viljum jafnframt að stjórnsýslan verði gerð opnari og gagnsærri. Þetta eru tillögur okkar. Hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson getur kynnt sér þær í formi frumvarps sem liggur fyrir þeirri nefnd sem hann veitir formennsku. Ég skora á hann að taka það frumvarp samhliða til athugunar og umræðu og fá álit þeirra sem koma fyrir nefndina á því frumvarpi jafnhliða frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Mér fyndist eðlilegt í framhaldinu að farið yrði að þeim tillögum sem einnig hafa komið fram á þinginu um að efna til víðtæks samráðs og samræðu um framtíð Ríkisútvarpsins. Ég tek undir þær tillögur sem þar hafa komið fram vegna þess að það hefur enginn rétt á að gera grundvallarbreytingar á Ríkisútvarpinu án þess að áður hafi allt verið gert (Forseti hringir.) sem unnt er til að skapa sátt um framtíð þessarar merku stofnunar.