Ríkisútvarpið hf.

Mánudaginn 23. janúar 2006, kl. 22:03:06 (3574)


132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú bara staðreynd að einkavædd eða einkarekin almannaþjónusta er iðulega ekki í samkeppnisumhverfi. Þeirri staðreynd vilja menn oft gleyma.

Aðeins um vinnubrögðin hér á Alþingi. Ég fagna því útspili hv. þingmanns að styðja þá viðleitni sem hefur komið fram hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og öðrum stjórnarandstöðuflokkum á þingi að eðlilegt sé að taka sambærileg mál og ræða þau samtímis — t.d. í þessu tilviki öll þau mál sem lúta að Ríkisútvarpinu — og hið sama eigi sér stað í þingnefndum. Ég minnist þess ekki að sá háttur hafi verið hafður á í efnahags- og viðskiptanefnd þó að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að iðulega hefur verið reynt að taka þingmannamál til umfjöllunar í nefndinni undir verkstjórn hv. þm. Péturs H. Blöndals. En við erum að tala um annan hlut hér, að taka til afgreiðslu og umfjöllunar, hvort sem er hér í þingsal eða í nefndum, þingmál sem eru tengd og senda þau samtímis út til umsagnar og fá síðan umræðu um það samtímis og spyrja þá sem koma til nefndarinnar samtímis um mismunandi valkosti sem boðið er upp á í þinginu. Þetta er yfirleitt ekki gert. En má vænta þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal muni beita sér fyrir slíkum vinnubrögðum?