132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[01:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar. Það var ekki tekið fram í því hvers konar samráð hefði farið fram við Reykjavík um þetta mál. Síðustu fréttir sem ég fékk voru ósköp einfaldlega þær að fulltrúar, eins og ég sagði frá áðan, þessara tveggja sveitarfélaga komu á fund menntamálanefndar og lýstu sömu skoðun á stöðu þeirra í þessum lögum. Í framhaldi af því var ósköp eðlilegt fyrir okkur í menntamálanefndinni, sem ég hygg að við höfum gert í áliti minni hlutans, að skora á menntamálaráðuneytið að taka upp samræður við þessi sveitarfélög og reyndar fleiri. Ég var að leita eftir því. Það hafa greinilega verið samræður milli menntamálaráðuneytisins og Seltjarnarness en hefur á sama hátt verið rætt við Reykjavíkurborg? Tónlistarhúsið er málinu auðvitað ekki að öllu óskylt en samtök þau sem urðu til um tónlistarhúsið gefa ekki til kynna að fram hafi farið þær samræður um Sinfóníuhljómsveitina sem um ræðir.

Af því að menntamálaráðherra er farin að svara spurningum, sem ég fagna mjög, væri ekki úr vegi að vita hvort hún kann skil á því hvers vegna Ríkisútvarpið er enn með mann í hinni svokölluðu verkefnavalsnefnd. Ræður þar pólitísk stefna menntamálaráðherra, að Ríkisútvarpið skuli vera þar, hið nýja hlutafélag sem sé? Eða eru þar sams konar mistök eins og í næstsíðustu málsgrein 3. gr.?