Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 24. janúar 2006, kl. 19:51:40 (3693)


132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega ekki sammála því áliti hæstv. sjávarútvegsráðherra að sú leið sem hann er að boða tryggi í sjálfu sér peninga til hafrannsókna eða opni á að hægt sé að stunda hér einhvers konar samkeppnisrannsóknir, alls ekki. Þetta hefði hæglega verið hægt að gera með þessum peningum, rúmlega hálfum milljarði kr., með því að hafa þessa peninga áfram í verkefnasjóðnum, búa frekar til nýjar reglur um verkefnasjóðinn, ný lög um verkefnasjóðinn, skilgreina hann upp á nýtt og halda síðan áfram. Og þá hefði hver sem er getað sótt um peninga í þann sjóð til að stunda rannsóknir á t.d. lífríkinu í hafinu umhverfis Ísland og er ekki vanþörf á.

Mér finnst hæstv. ráðherra draga upp afskaplega veika og ótrúverðuga víglínu í málinu. Málflutningur hans heldur eiginlega ekki vatni því hægt er að gera þetta með öðrum hætti en að afsala þessum peningum í hendurnar á ríkissjóði. Það er miklu betra fyrir sjávarútveginn, tryggir miklu betri hagsmuni sjávarútvegsins að þessir peningar verði áfram þar sem þeir eru, skýrt skilgreindir í sjóði.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að ég vil fá að vitna í Hamlet eftir Shakespeare: Það er eitthvað rotið í Danaveldi. Það er eitthvað í þessu máli sem ég kem ekki alveg auga á, mér dettur það helst í hug. Hefur ríkisendurskoðandi gert athugasemdir við Verkefnasjóð sjávarútvegsins eins og hann er í dag, við þær reglur sem eru um hann og skipun stjórnarmanna í þeim sjóði, jafnvel úthlutunarreglur eða eitthvað þess háttar? Er það það sem í raun og veru fær hæstv. sjávarútvegsráðherra til að fara út í það að reyna að afgreiða málin með svona undarlegum hætti? Mér er bara spurn.