Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 24. janúar 2006, kl. 19:55:46 (3695)


132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[19:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í rauninni er ekki verið að deila um hvort ekki sé vilji fyrir því að efla hafrannsóknir í landinu eða setja meiri peninga í það. Eins og ég hef sagt áður og segi enn og aftur er alveg hægt að gera það þó að þessi sjóður lifi áfram. Það er alveg nóg að skoða í hvað peningarnir hafa farið fram til þessa. Þeir hafa farið í hafrannsóknir og ég get ekki séð að nein breyting verði á því þó að peningarnir séu áfram í þessum sjóði, langt í frá. Miklu frekar væri hægt að gera úr þessum sjóði gott og skilvirkt tæki einmitt til að nota þessa peninga. Auðvitað klárast þeir einn góðan veðurdag en það er þá hægt að nota þá skynsamlega, með skýrt skilgreindum hætti í ákveðin verkefni.

Ég leyfi mér t.d. að minna á verkefni sem Hjálmar Vilhjálmsson, helsti loðnusérfræðingur okkar, hefur verið að reyna að fá peninga í núna í mörg ár — og hæstv. sjávarútvegsráðherra kannast mjög vel við það — til að rannsaka loðnuna, hvað er að gerast í hafinu norður af Íslandi á sumrin. Ég hygg að hann reki minni til þess þegar Hjálmar Vilhjálmsson kom á fund til okkar í sjávarútvegsnefnd, gott ef það var ekki í fyrra, og talaði m.a. um þetta. Þarna er á ferðinni mjög brýnt verkefni. Mig minnir að talað hafi verið um kostnaðarramma upp á 200 milljónir. Það hefði verið hægt að nota peninga úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til að mynda í svona verkefni og ég hefði stutt það heils hugar.

Ég tel einfaldlega að þetta sé miklu vænlegri leið. Ég treysti því ekki fyrir næsta húshorn að staðið verði við það sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að þessir peningar eigi síðan að fara af fjárlögum. Sú ríkisstjórn sem nú er, það er eins og hún haldi að hún lifi endalaust. Kannski trúir hún á líf eftir dauðann, ég veit það ekki. En ég minni á að hún á sennilega ekki nema rétt rúmt ár eftir ólifað. Þá mun alveg örugglega ný ríkisstjórn taka við, hvort hún verður skipuð sömu flokkum eða ekki veit ég ekki, ég vona svo sannarlega að sú hlið komi ekki upp á teningnum, heldur að við fáum öðruvísi stjórnarform. Hvað vitum við um hvernig sú stjórn kýs að haga málum? (Gripið fram í.)