Styrkir til erlendra doktorsnema

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 12:12:08 (3699)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Styrkir til erlendra doktorsnema.

186. mál
[12:12]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Eins og kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra hefur það verið stefna stjórnvalda að styrkja íslenska doktorsnema og ég vil lýsa þeirri skoðun minni hér að ég er sammála þeirri stefnu. Það er verið að efla mjög allt umhverfi doktorsnámsins og því er þessi endurskoðun Rannsóknarnámssjóðs í takt við áherslur hæstv. menntamálaráðherra. Ég fagna þessum áherslum. Það hlýtur að vera markmið okkar að styrkja allt umhverfi doktorsnema og ekki síst að tryggja þeim öruggari framfærslu þannig að þeir geti einbeitt sér betur að náminu.