Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 12:28:20 (3707)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:28]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mjög vel til fundið að auglýsingar í tengslum við barnatíma í sjónvarpi séu hreinlega bannaðar. Við sem erum foreldrar smábarna verðum vör við það mikla áreiti sem börnin verða fyrir. Sem betur fer hefur kannski ekki mjög mikið borið á því á íslenskum sjónvarpsrásum en ef stillt er yfir á erlendar rásir sem mörg heimili hafa aðgang að í dag þá er þar ofboðslegt auglýsingaflóð í gangi sem er miðað að börnunum, sérstaklega á barnarásum. Ég vil ekki sjá að málin þróist í þann farveg á Íslandi.

Ég vil hvetja stjórnvöld til þess einmitt að sýna meira aðhald í þessum málum. Hér var talað um áfengisauglýsingar og við sjáum hvernig auglýsendur og þeir sem vilja auglýsa áfengi í dag hreinlega brjóta lögin ítrekað. Það eru lög í landinu og fólki ber að fara eftir þeim. Síðan er annað mál hvort fólki finnist þau lög óréttlát eða ekki. En það er fyllilega kominn tími til þess að það verði gert eitthvað varðandi þessar áfengisauglýsingar og við eigum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann hvað varðar auglýsingar sem miðast að börnum.