Brú yfir Jökulsá á Fjöllum

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 13:12:14 (3729)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum.

335. mál
[13:12]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrirspurn um nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að skoða þær aðstæður sem þar eru og þá sérstaklega með tilliti til hugsanlegra hamfarahlaupa. Landslag og aðstæður eru kannski ekki alveg með venjulegum hætti og þar af leiðandi er ekki nóg að horfa eingöngu til styttingar eða þeirra þátta sem venja er að horfa til þegar verið er að leggja nýjan veg og nýja brú og þá með tilliti til kostnaðar. Brúin er einbreið, hún er hættuleg af þeim sökum. Hún tekur venjulegan flutning en það er ekki hægt að fara þar yfir með t.d. hús og þungavöru, eins og hér hefur verið lýst. Slíkir flutningar verða æ algengari þannig að ég tel mjög mikilvægt að hraða og vinna vel að undirbúningi þessarar brúar.