Brú yfir Jökulsá á Fjöllum

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 13:14:23 (3731)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum.

335. mál
[13:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra komst svo að orði að verkhönnun gæti lokið á öndverðu ári 2007. Ég leyfi mér að taka þessi ummæli svo að í þeim felist sá vilji hans að ekki standi á mannafla og fjármunum að ljúka hönnun svo fljótt sem verða má og hægt verði að bjóða þetta verk út á miðju ári 2007 ef fjármunir eru fyrir hendi.

Nú er ef til vill við því að búast að meira fé verði lagt í samgönguáætlun og þá liggur ljóst fyrir að þetta er sú brú á hringveginum sem þýðingarmest er. Ekki verður fram hjá því horft.

Ég rifjaði það upp í báðum ræðum mínum í nóvember að ástandið væri þannig að verktakar á Akureyri hefðu orðið að fara á vaði yfir Jökulsá á Fjöllum með tæki sín. Ég veit ekki hvað menn mundu segja í öðrum fjórðungum ef þeim yrði þannig stillt upp að þeir yrðu að fara yfir slíkt vatnsfall á vaði til að komast leiðar sinnar með tæki og búnað. Ég er hræddur um að einhvers staðar heyrðist eitthvað. En menn eru hraustir fyrir norðan.

Ég vil líka segja af því að rætt var um að taka stóran krók. Krókurinn getur verið allur hringurinn nema þessi stutti spölur milli Akureyrar og Egilsstaða, ef við hugsum um þá tvo staði, vegna þess að vegurinn upp að Dettifossi opnaðist ekki fyrr en í miðjum júnímánuði á þessu sumri og var þó veturinn ekki erfiður. Við getum því ekki haldið því fram að það sé nema sumarvegur á milli Kelduhverfis og hringvegarins en úr því verður nú bætt. Það er verið að tala um að leggja veg niður að Dettifossi og bjóða það út í beinu framhaldi af því. Þar sem það er stefna stjórnvalda að leggja umsvifalaust vegi um þjóðgarða veit ég að ekki stendur á því að leggja fram það fé sem upp á vantar. Við sjáum það á ýmsum öðrum þjóðgörðum að stjórnvöldum er í mun að hafa góða vegi í þjóðgörðum.