Þjónustusamningur við SÁÁ

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 13:54:02 (3746)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Þjónustusamningur við SÁÁ.

293. mál
[13:54]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa brýnu fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra og minna okkur á að ekki hefur verið gengið frá þessum þjónustusamningi eins og kom fram í fjárlagaumræðunni. Ég tel mjög brýnt að ráðuneytið leggi kapp á að ljúka þessum samningi þar sem það er fyrir hverja einustu stofnun mjög erfitt að búa við að hafa ekki þjónustusamning, ég tala nú ekki um stofnun eins og SÁÁ þar sem sú stofnun sinnir nærri ein orðið meðferð áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Þrýstingurinn og þörfin er stöðugt að aukast. Það eru að bætast inn nýir hópar eins og morfínneytendur. Launaskrið er hjá opinberum stofnunum. Því þarf að mæta líka. Breiðari hópur leitar til þessarar stofnunar þannig að verkefnin (Forseti hringir.) eru einnig að aukast. Stofnunin er því í mjög erfiðri stöðu.