Fangaflug Bandaríkjastjórnar

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 10:51:54 (3792)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja það alveg hreint út að mér verður næstum því óglatt þegar ég hlusta á hv. þingmenn halda því fram að það sé ekkert sérstakt á seyði, ekkert sérstakt sé að gerast, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hérna áðan. Hvað kemur fram í þeirri skýrslu sem verið var að ræða í Evrópuráðinu í fyrradag? Þar kemur fram að menn hafa verið teknir á götu um hábjartan dag og þeim rænt í nágrannalöndum okkar og fluttir með ólögmætum hætti á milli landa í einhverjum leppfyrirtækjum CIA, til landa þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur. Svo koma menn og segja að þetta sé allt í fínu lagi, þetta sé bara svona óstaðfestur sögusveimur og ekki sé búið að sanna neitt. Þarf að koma með höfuðið á fati til þess að menn virkilega trúi? Er það svoleiðis?

Hvað hefur breyst frá því að hæstv. forsætisráðherra ræddi þetta við okkur fyrr í vetur? Hæstv. forsætisráðherra sagði að málið væri í umræðu hjá Evrópuráðinu og við skyldum bíða eftir rannsókn þess og sjá þá til hvernig málið væri. Nú kemur fram skýrsla í Evrópuráðinu þar sem því er slegið alveg föstu að ólöglegt fangaflug átti sér stað, þar sem sagt er að ekki sé hægt að færa sönnur á að það séu leynileg fangelsi til en það leiki grunur á því, þar sem rakin eru fjölmörg dæmi um að mönnum er rænt úti á götu í landi eins og Svíþjóð og fluttir um hálfan heiminn til að berja þá og hálfdrekkja. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópuráðsins sem hefur verið í fylkingarbrjósti í baráttu fyrir mannréttindum og sem hæstv. forsætisráðherra hefur lyft sem slíkri stofnun. Það er það sem er nýtt. Þess vegna er það sem ég segi að hæstv. ríkisstjórn er tvísaga. Hún vildi bíða eftir Evrópuráðinu. Nú liggur skýrslan fyrir frá því og þá bara híar hún á skýrsluna.