Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 11:05:44 (3800)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:05]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Flestar þær virkjanir sem hér er um að ræða eru þannig gerðar að það er hægt að nýta heitt vatn líka, það ákvæði sem hæstv. ráðherra heldur hér í er hægt að nýta til þess að veita vilyrði fyrir öllum jarðhitavirkjunum sem menn láta sér detta í hug að koma hér á. Það er þess vegna sem við treystum því ekki að það verði ekki notað í þeim tilgangi. Hæstv. ráðherra verður að sætta sig við þá tortryggni sem er gagnvart henni hvað þessi mál varðar.

Ég geri ráð fyrir því að í umræðum hér á eftir vilji menn ræða þessa hluti til hlítar, þ.e. hvernig eigi í framtíðinni að fara með auðlindir í eigu þjóðarinnar, þjóðarauðlindir sem eru mikils virði. Á samkeppnismarkaði, sem búið er að koma hér upp, er það óþolandi fyrir þá sem koma til með að þurfa að borga fullt gjald fyrir þær auðlindir sem þeir nýta að vera í samkeppni við þá sem hæstv. ráðherra úthlutar fyrir ekki neitt.