Breytingar á skattbyrði

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 15:33:37 (3821)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:33]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er sorglegt að heyra hv. þingmenn, þingreynda mjög, hafa uppi orð eins og blekkingar, skrök og sigla undir fölsku flaggi. Bera síðan á borð tölur um persónuafslátt og skattleysismörk eftir því sem hentar. Þegar vitað er að það sem skiptir máli í þessu sambandi eru skattleysismörkin, það sem snýr að einstaklingunum. Það er auðvitað alveg augljóst, það vita það allir, að á meðan hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sat í ríkisstjórn þá voru skattleysismörkin aftengd frá verðlagsþróuninni. Það (Gripið fram í.) leiddi til þess að skattleysismörkin á meðan hv. þingmaður var í ríkisstjórn lækkuðu úr 105.473 í 83.858 á föstu verðlagi dagsins í dag. Það hefur aldrei nokkurn tímann gerst síðan að skattleysismörkin hafi lækkað á sama hátt og þetta. Eins og ég var að lýsa hér áðan eru skattleysismörkin í þeirri skattalækkunarhrinu sem er í gangi núna komin upp fyrir það sem þau voru þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skildi við þau.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson býsnast yfir því að verið sé að tala um skattalækkanir fram í tímann. Þetta eru skattalækkanir sem búið er að samþykkja og því er alveg sjálfsagt að taka þær með í reikninginn. (Gripið fram í.)

En ég er hins vegar sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við eigum auðvitað að skoða þetta í heild sinni. Þá er það staðreynd að lægsta tíundin, sem hv. þingmenn virðast bera fyrir brjósti — hagur hennar, kaupmáttur ráðstöfunartekna þegar búið er að leggja á skattana hefur á því tíu ára tímabili sem er til umræðu hækkað um nær 30%. En það er hins vegar staðreynd að frá 1994 hafa skatttekjurnar aukist, skattarnir hafa lækkað og við höfum greitt niður skuldir ríkisins jafnframt því að styrkja velferðarkerfið. Geri aðrir betur, hv. þingmaður.