Afbrigði

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 16:15:35 (3823)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Afbr.

[16:15]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu í þeirri atkvæðagreiðslu sem nú fer fram um afbrigði um breytingartillögu um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni — ég greiði atkvæði á móti þó það sjáist ekki hér á töflunni þar sem hún virkar ekki — ég mun greiða atkvæði gegn því að veita breytingartillögunni brautargengi, að hún verði tekin inn á dagskrá, vegna vinnubragða en ekki efnislega. Eins og hér kom fram vantar okkur tíma til að fara út í áframhaldandi umræður um málið á forsendum þeirra breytingartillagna sem hér hafa komið fram. Við þurfum tíma, þingflokkarnir, til að fara yfir breyttar aðstæður, mismunandi skilaboð sem borist hafa inn á fundinn varðandi efnistök þessa máls og hvað þessar breytingar yfir höfuð hafa að segja. Því greiði ég atkvæði gegn því að þessi breytingartillaga fari hér á dagskrá. Ég tel að við þurfum meiri tíma til að skoða málið.