Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 17:03:06 (3848)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:03]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er já. Enda liggur þetta alveg í augum uppi. (KolH: Nei.) Þetta liggur alveg í augum uppi. Þetta er 5. gr. í núgildandi lögum sem er að vísu 2. gr. í frumvarpinu og þar stendur: „Ráðherra er heimilt í rannsóknarleyfi að veita fyrirheit um forgang leyfishafa“ — ég var að lesa þetta áðan — „að nýtingarleyfi“ — og svo kemur breytingartillagan — „fyrir hitaveitur í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis er lokið og að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á þeim tíma.“

Ég fór yfir það, virðulegi forseti, að við settum inn orðin „fyrir hitaveitur“ til að taka af allan vafa um að þessi fyrirheit, eins og segir í núgildandi lögum, eigi aðeins við um hitaveitur þannig að ótti manna um að upp hæfist hér einhver mikil hringekja og mikil eftirspurn eftir þessum rannsóknarleyfum er ástæðulaus. Þess vegna setjum við þetta inn í 5. gr. Ég held, virðulegi forseti, að ég sé búinn að segja þetta að minnsta kosti fimm eða sex sinnum og ég er reiðubúinn að segja þetta oftar. Þetta er nýtingarleyfi fyrir hitaveitur. Ég vona sannarlega að svo sé komið að allir skilji þetta.