Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 17:15:13 (3855)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vildi gera það að tillögu minni um framhald þessa fundar í dag að hæstv. forseti tæki það til skoðunar hvort ekki væri eðlilegt að framsögumaður stjórnarandstöðunnar í iðnaðarnefnd flytti mál sitt nú og kæmi með þær skýringar inn í málið sem eðlilegt væri af hálfu stjórnarandstöðunnar sem samþykkti málið í iðnaðarnefnd. Síðan yrði fundi frestað þegar fram væru komin sjónarmið bæði meiri hlutans og stjórnarandstöðunnar og við héldum svo málinu áfram á mánudag. Mér sýnist þessi verk ekki leiða til neinnar skynsamlegrar niðurstöðu, hæstv. forseti, og ég held að það sé málinu ekki til framdráttar að halda því áfram í þeirri stöðu sem það er. Við byrjuðum á því um ellefuleytið í morgun, að ég hygg, og við erum enn nánast á sama stað. Ég held að þetta væru skynsamleg vinnubrögð nú þegar fer að halla verulega á síðdegið á fimmtudegi.