Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 17:57:08 (3869)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:57]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að þeir sem fá rannsóknarleyfi eftir að búið er að breyta þessum lögum núna og samkvæmt frumvarpinu geti alls ekki gert ráð fyrir að fá virkjanaleyfi frekar en aðrir á markaðnum. Þeir verði að horfast í augu við það að þeir þurfi að keppa á jafnræðisgrundvelli um nýtingu þeirra orkulinda sem þar eru á ferðinni. Þeir þurfa að hafa trú á því sem þeir eru að gera þar og auðvitað munu þeir þá bjóða í þá orkulind ef niðurstaðan verður sú að nota slíkar aðferðir við að velja á milli aðilanna. Ekki liggur fyrir hvernig verður staðið að því í framtíðinni en það þarf að gera. Ég geri ráð fyrir að margar leiðir komi þar til greina og margar skilgreiningar komi til greina. Það fer eftir því hvaða orkulindir eiga í hlut.

Það getur t.d. alveg verið að í sumum tilfellum þurfi og eigi ríkið að láta rannsaka þær orkulindir sem um er að ræða og bjóða þær út á því stigi þegar menn eru farnir að sjá umfangið sæmilega skýrt. Á öðrum stöðum er kannski hægt að leyfa aðilum að fá rannsóknarleyfi og síðan verði boðin út nýtingin á tilteknu stigi þar á eftir. Þetta eru bara hlutir sem sú nefnd sem á að setja á laggirnar á að fást við að skoða og er hluti af því verkefni sem fylgir því að setja þjóðarauðlindir inn í stjórnarskrána.

Þó svo að það yrði ekki, þó svo að niðurstaðan yrði svo skelfileg að menn mundu ekki klára stjórnarskrána, verða menn samt sem áður að klára þetta verkefni. Ég ætla samt sannarlega að vona að menn gefist ekki upp á endurskoðun stjórnarskrárinnar en ég vonast líka til að við sjáum það ákvæði þar inni sem ég hef verið að nefna.