Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 26. janúar 2006, kl. 18:00:31 (3871)


132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:00]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því er fljótsvarað, auðvitað tel ég það. Það á að flýta grunnrannsóknunum sem tillögurnar liggja reyndar fyrir um. Það liggur fyrir frá hendi Náttúrufræðistofnunar að hægt sé að ljúka þessum grunnrannsóknum, sem Náttúrufræðistofnun á að gera eða gert er ráð fyrir að verði gerðar, á fjórum árum. Þær munu hins vegar ekki klárast nema á 12 árum miðað við þau framlög sem nú eru til staðar. Það þarf auðvitað að bæta úr þessu. Það á heldur ekki að úthluta rannsóknarleyfum í öllum tilfellum. Það verður auðvitað að metast hvort grunnrannsóknir eru komnar það langt að hægt sé að gera það. Ég geri bara ráð fyrir því að þannig vinni menn faglega í ráðuneytinu hvað þá hluti varðar. Ég tel að það sé ekki ástæða til að tortryggja alla hluti hér. Auðvitað reyna menn að gera sitt besta þó svo að við getum verið ósammála því hvernig unnið er að málum af pólitískum ástæðum. Þá held ég að flestir vilji nú vinna vel.