Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 30. janúar 2006, kl. 17:32:30 (3929)


132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[17:32]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um að koma Rafmagnsveitum ríkisins í einkahlutafélagsform og stofna hlutafélag um Rarik. Því er aðallega haldið fram sem rökum í málinu að fyrirkomulagið sé þjálla og hagkvæmara til að fyrirtækið geti þróast áfram, það geti tekið þátt í eignamyndun og keypt hlut í öðrum félögum, sameinast öðrum félögum o.s.frv.

Í upphafi er rétt að benda á, hæstv. forseti, að samkvæmt greinargerð frumvarpsins og athugasemdum verður ekki séð að fyrirkomulagið á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins hafi á nokkurn hátt staðið fyrirtækinu fyrir þrifum með að kaupa fyrirtæki eða kaupa sig inn í fyrirtæki. Í athugasemdunum má lesa hvað Rafmagnsveitur ríkisins eiga, hvað þær eiga í háspennulínum, dreifilínum, jarðstrengjum, stofnlínum, sæstrengjum o.s.frv., allt hlutir sem rafmagnsfyrirtæki þarf að eiga. Auk þess eiga rafmagnsveiturnar dreifikerfi í 50 þéttbýlisstöðum og 55 aðveitustöðvar. Rafmagnsveiturnar eiga níu vatnsaflsvirkjanir í rekstri og stærstar þeirra eru Lagarfossvirkjun og Skeiðsfossvirkjun.

Í greinargerð segir að á undanförnum árum hafi Rafmagnsveiturnar keypt nokkrar orkuveitur sem voru í eigu viðkomandi sveitarfélaga. Þær eru eftirfarandi: Hitaveita Hafnar í Hornafirði, Rafveita og Hitaveita Siglufjarðar ásamt Skeiðsfossvirkjun, Hitaveita Seyðisfjarðar, Rafveita Borgarness, Rafveita Hveragerðis, Rafveita Sauðárkróks, Hitaveita Dalabyggðar og Hitaveita Blönduóss.

Reynslan hefur þegar leitt í ljós að fjárfestingar þessar hafa ekki eingöngu verið arðbærar Rafmagnsveitunum heldur einnig þeim sveitarfélögum sem hlut áttu að máli.

Síðan segir í greinargerðinni:

„Þá stofnuðu Rafmagnsveiturnar einnig á sama ári hlutafélagið Sunnlenska orku ehf. ásamt Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi í þeim tilgangi að standa að virkjun jarðhita í og við Grændal. Eignarhluti Rafmagnsveitnanna er 90%. Að auki eiga Rafmagnsveitur ríkisins hluti í sjö öðrum félögum.“

Hæstv. forseti. Þegar þetta er lesið upp og skoðað er ekki hægt að finna fyrir því sérstök rök sem hæstv. ráðherra hélt fram, að hlutafélagsformið þyrfti til að fyrirtækið geti eignast hluti í öðrum félögum, tekið upp samstarf við þau, átt lítið eða mikið í öðrum félögum eða keypt að öllu leyti. Mér finnst það eiginlega ekki standast sem aðalrök málsins að félagið hafi átt í erfiðleikum með að aðlaga starfsemi sína á undanförnum árum og áratugum. Greinargerðin segir allt annað. Félagið hefur verið á fullri ferð við ýmsa hluti sem við verðum hreinlega að vona að hafi tekist vel og verið landsmönnum til hagsbóta. Rökin fyrir hlutafélagavæðingu standast þannig varla sem slík. Þau standast ekki þegar litið er til þess sem félagið hefur verið að gera á undanförnum árum. Ég treysti því að stjórnendur fyrirtækisins hafi gert það sem ég taldi upp með það fyrir augum að efla rekstur félagsins og veita betri þjónustu.

Þegar hæstv. ráðherra heldur fram í ræðu sinni að hlutafélagsformið sé nauðsynlegt til að félagið geti haldið áfram að dafna, taka þátt í framleiðslu, sölu, dreifingu o.s.frv. þá fær það varla staðist. Þetta vildi ég bara benda á í upphafi. Ég get ekki séð að fyrirkomulag Rafmagnsveitna ríkisins hafi staðið félaginu fyrir þrifum.

Í Bæjarins besta var í janúar m.a. sagt frá því að Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun væru að stofna sameiginlegt fyrirtæki. Með því átti að marka skýr skil á milli einkaleyfis og samkeppnisrekstrar hjá Orkubúi Vestfjarða og Rarik, en fyrirtækið rekur einnig dreifiveitur. Þá komum við kannski að því sem ég vildi gera að umræðuefni. Við samþykktum raforkulög við lok árs 2003 til að efla samkeppni, koma á virkri samkeppni fyrirtækja á raforkusölumarkaði í dreifingu o.s.frv. Nú sé ég í þessari frétt að stofna á eitt sameiginlegt fyrirtæki um dreifiveitu Orkubús Vestfjarða, smásölu og framleiðslu raforku. Þar verður stofnað eitt fyrirtæki og Landsvirkjun er aðili að því fyrirtæki. Þrjú fyrirtæki í eigu ríkisins standa að því að stofna sameiginlegt fyrirtæki til að annast ákveðinn þátt starfseminnar. Ég fæ það ómögulega inn í minn haus hvernig það eflir samkeppni á markaði þegar fyrirtækjunum er stillt saman til að stofna fyrirtæki í ákveðnum tilgangi. Í fréttinni segir frá stofnun hlutafélags um orkuframleiðslu og orkusölu í samvinnu við Rarik og að Landsvirkjun hafi komið inn í verkefnið. Þrjú fyrirtæki, Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun, stofna eitt fyrirtæki um smásölu og orkuframleiðsluna.

Síðan eru talin upp í fréttinni nokkur fyrirtæki sem fara inn í þennan pakka. Þar segir, með leyfi forseta:

„1. Félagið yfirtekur sölustarfsemi OV og Rariks og verður sölugjaldskrá OV aðlöguð gjaldskrá félagsins í áföngum. Að minnsta kosti einn starfsmaður sem vinnur að sölustarfsemi verður staðsettur á Vestfjörðum.

2. Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða munu áfram vera virkjanir fyrir hið nýja félag samkvæmt sérstöku samkomulagi og verður því ekki breyting á högum þeirra starfsmanna sem starfa nú við virkjanir Orkubús Vestfjarða.“ — Þ.e. þetta snýr að starfsmönnum.

Síðan er talinn upp hluti af eignum Rariks. Taldar eru upp nokkrar virkjanir sem Rarik á, síðan virkjanir sem Orkubú Vestfjarða á og á vegum Landsvirkjunar eru nefndar Laxárstöðvarnar. Þetta er það sem virðist eiga að sameinast. Það er fullt af orkuveitum, rafmagnsveitum og hitaveitum Rariks sem ekki fara inn í þessa sameiningu. En varðandi raforkusöluna þá sýnist mér að menn séu að draga úr samkeppni en ekki að auka hana með þessu fyrirkomulagi. Ég hefði gjarnan viljað heyra skýringar hæstv. ráðherra á því hvort þetta samrýmist því meginsjónarmiði sem raforkulögin frá 2003 byggja á, þ.e. að stuðla að samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Ég átta mig ekki alveg á því, hæstv. forseti, hvernig þetta á t.d. að auka samkeppni.

Þótt venjulegir neytendur eigi frá og með áramótum að geta valið sér viðskiptaaðila þá sýnist mér a.m.k. að ekki sé nema einn viðskiptaaðili í sölu raforku frá Rarik, Orkubúi Vestfjarða og Landsvirkjun, á þeim svæðum sem Rarik og Orkubú Vestfjarða starfa. Eða ég skil þetta svo.

Mér sýnist í raun sem það sem ég les hér úr Bæjarins besta fara algerlega í bága við það sem raforkulögunum var ætlað, þ.e. aukna samkeppni, virka samkeppni þar sem neytendur, kaupendur raforkunnar, gætu valið orkusala. Það kemur beinlínis fram að menn ætli að samræma taxtana milli svæða. Ég hef ekki skoðað sérstaklega hvort það sé sérstaklega hagkvæmt fyrir fólk í landinu, sem býr á orkuveitusvæðinu sem Rarik og Orkubú Vestfjarða nær til, að Orkubúið skuli í áföngum laga söluskrá sína að taxta Rariks. Það kann vel að vera að svo sé. En þrátt fyrir það hefur samkeppnisaðilunum fækkað. Það eru fyrirtæki í eigu ríkisins sem standa að þessu. Ég velti því fyrir mér hvort þetta samrýmist orkulögunum, þar sem átti að auka samkeppni. Mig langar að heyra skýringar hæstv. ráðherra á því. Ég vildi gjarnan geta skilið, hæstv. forseti, hvernig þetta fellur að markmiðum raforkulaganna um að stuðla að samkeppni í vinnslu og viðskiptum. Ég þarf skýringar því að ég átta mig ekki á því, hæstv. forseti.

Að öðru leyti tel ég að frumvarpið sé nokkuð skýrt, þ.e. um hvað það fjallar. Það fjallar einfaldlega um að stofna þetta hlutafélag og að það taki til starfa sem fyrst á árinu 2006. Reyndar átti það að taka til starfa 1. janúar. Það verður ekki af augljósum ástæðum og menn lagfæra slíkar greinar í frumvarpinu í nefnd.

Ég hefði hins vegar áhuga á að heyra svör ráðherra við vangaveltum mínum. Ég sé ekki, þótt þessu sé breytt í hlutafélagaform, að neitt verði lagað til á samkeppnissviðinu. Það sem fyrirtækið hefur aðhafst á undanförnum árum, með því kaupa sig inn í fjöldamörg fyrirtæki og kaupa upp hitaveitur, gefur ekki tilefni til þess. Eins og ég kom inn á í tengslum við frétt sem ég las upp úr Bæjarins besta, er mér ekki ljóst hvernig samruni tveggja fyrirtækja um sölu raforkunnar eykur samkeppni á markaðnum.