Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 30. janúar 2006, kl. 18:12:41 (3934)


132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um að við getum ekki rætt um raforkuverð hjá stórum íslenskum iðnfyrirtækjum án þess að hafa allar forsendur og alla flækjuna sem að baki liggur. Mér finnst þessi yfirlýsing, eins klár og kvitt og hrein og skýr og hún er, mjög alvarleg og finnst eðlilegt að hv. þingmaður komi sér undan því að ræða hana.

Hann talaði um niðursuðuhugmynd vinstri aflanna á sjöunda áratugnum. Það er gaman að skoða pólitík liðinna ára en þá verðum við líka að skoða hana sem sagnfræði. Við þekkjum öll sögurnar um áætlunarbúskap í Sovétríkjunum eða hjá Stalín fyrrverandi einræðisherra í austrinu sem ætlaði að setja niður sokkaverksmiðju hér og baunaverksmiðju þar. Við lifum á öðrum tímum hefði ég haldið, eða hvað? Lifum við kannski ekkert á öðrum tímum? Er áætlunarbúskapur Stalíns kannski bara kominn hingað, er hann að ganga í endurnýjun lífdaga hér fyrir forustu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks? Er það ekki áætlunarbúskapur að setja niður álver úti um allt land og bjóða fólki ekki upp á nokkurn skapaðan hlut annan? Það er bara álver eða dauði. Öðruvísi mér áður brá. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga að gæta sín á því hvað þeir segja því að það er einmitt það sem þeir eru að predika, forsjárhyggju og áætlunarbúskap í líki stóriðju þar sem menn selja raforkuna okkar á útsöluprís.

Ég get rökstutt þetta með útsöluprísinn. Við seljum raforkuna úr Kárahnjúkavirkjun kannski á einhver 18 mill á sama tíma og verið er að selja raforku til sambærilegs iðnaðar annars staðar í Evrópu á um 24–26 mill, þ.e. við seljum raforkuna okkar á sama verði og kannski er hægt að fá hana í Suður-Afríku eða Suður-Ameríku. Þar með skerum við okkur úr samkeppnisumhverfinu, förum út af samkeppnismarkaðnum (Forseti hringir.) og leggjumst ansi lágt.