Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 30. janúar 2006, kl. 18:48:51 (3942)


132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er fróðleg umræða um niðurgreiðslu á rafmagni. Sannast sagna stóð ég í þeirri meiningu að almenningur og almennur atvinnurekstur í landinu niðurgreiddi stóriðjuna. En þetta horfir allt til bóta ef eftir ganga fullyrðingar og heitstrengingar forvera hæstv. ráðherra sem sagði að þegar Kárahnjúkavirkjun væri komin í gagnið væri góð tíð fram undan, því það eitt mundi hafa í för með sér verulega lækkun á rafmagnsverði. Það verður fróðlegt að leggjast yfir það og fletta upp prósentustigum í því sambandi.

Varðandi varnaðarorð sem uppi voru við kerfisbreytingarnar, ég man ekki betur en bæði forstjóri Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur hafi sagt á sínum tíma, talsvert fyrir þessar breytingar, að það væri mat þeirra að þær mundu hafa verulegan kostnaðarauka í för með sér.

Hæstv. ráðherra talar um hræðslu við breytingar. Reyndar kom upp í hugann orðið hræðsla þegar okkur var sagt frá því að hæstv. ráðherra hefði haldið til Brussel til að kanna hvort undanþágu mætti fá frá tilskipun Evrópusambandsins um raforkumál. Hvers konar fundur hefur það verið ekki síst í ljósi þess sem við jafnframt heyrum að hæstv. ráðherra hafi talið það hið mesta óráð að sækja um þessa undanþágu? Eftir því sem ég fæ skilið telja margir, þetta er álitamál vissulega, um það er deilt, að vegna þess hve fjarri við erum hinum evrópska markaði, markaðnum með raforku á meginlandi Evrópu, hefði af þeirri ástæðu einni verið auðsótt að fá þá undanþágu. (Forseti hringir.) Ég mun koma nánar að þessu á eftir.