Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 30. janúar 2006, kl. 19:09:27 (3947)


132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert undarlegt að álfyrirtækin sækist eftir því að komast að á Íslandi vegna þess að hér er boðið upp á lægsta orkuverð sem um getur í Evrópu og þótt víðar væri leitað.

Varðandi efnahagslegan ávinning af stóriðjuuppbyggingu síðustu ára þá hefur hún aðallega gengið út á það að taka peninga að láni. Kárahnjúkavirkjun er fjármögnuð fyrir lánsfjármagn og það eru áhöld um hvort hún skili nokkrum hagnaði eða setji okkur jafnvel í mjög alvarlegan mínus.

Varðandi hlutafélagafælni sem hv. þingmaður nefndi svo þá er það alrangt hjá honum og misskilningur að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði séum hlutafélagafælin. Við erum hlynnt þessu formi þar sem það á við á markaði. Ég hef í dag t.d. talað um kosti hlutafélaga, hvernig þau gagnist við eigendaskipti, við kaup og sölu á hlutum og varðandi aðhald á markaði, en í einokunarfyrirtæki, einokunarstofnun sem sinnir almannaþjónustu gegnir öðru máli og það er það sem við erum að andmæla.

Hitt fannst mér gott að heyra og heiðarlegt af hálfu hv. þingmanns þegar hann sagði: Að sjálfsögðu eigum við ekki að útiloka sölu á Rarik. Slík ákvörðun á alltaf að vera til endurskoðunar og minnir okkur á söluna á Símanum og á bönkunum á sínum tíma.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða forsendur telur hann þurfa að vera fyrir hendi til að við seljum Rarik, til að Sjálfstæðisflokkurinn eða hv. þingmaður styddi slíkt? Telur hann koma til greina að selja núna fljótlega ef fram kæmi tilboð um verulegt fjármagn (Forseti hringir.) inn í þennan geira við slíka sölu?