Tóbaksvarnir

Þriðjudaginn 31. janúar 2006, kl. 17:38:04 (3999)


132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:38]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekkert um skaðsemi reykinga. Það hvarflar ekki að mér að efast um að reykingar séu heilsuspillandi, og reyki sjálfur ekki. Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp og vek athygli á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið er að þau ganga gjörsamlega fram af mér. Hins vegar er það þannig að þeir vísindamenn sem stóðu að rannsókninni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar setja ákveðna fyrirvara við tengsl lungnakrabbameins og óbeinna reykinga. Það kemur fram í þessari rannsókn sem ég er með hérna. Ég hlýt að furða mig á því hvers vegna í ósköpunum heilbrigðisráðuneytið og Lýðheilsustöð víkja ekki að þessari rannsókn í greinargerð. Hvorki í greinargerð Lýðheilsustöðvar né þeirri sem fylgir frumvarpinu er vikið að henni. Þó svo að menn hafi reynt að stinga þessari rannsókn undir stól er það engin afsökun og getur aldrei verið vegna þess að af henni hafa verið fluttar fréttir og ég veit ekki betur en að ráðuneytisstjórinn í heilbrigðisráðuneytinu sé einn af framkvæmdastjórum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Okkar helstu svokölluðu sérfræðingum á þessu sviði átti að vera vel kunnugt um að þessi rannsókn lægi fyrir.

Þetta er bara svona. Ég endurspegla það sem kemur fram í rannsókn á þessu máli. Þetta varðar ekkert mína skoðun. Ég held því ekkert fram prívat og persónulega, enda hef ég enga þekkingu á því hvort afleiðingarnar séu þær sem segir í greinargerð Lýðheilsustöðvar. (Forseti hringir.) En miðað við þær rangfærslur sem koma þar fram (Forseti hringir.) efast ég um það.