Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða

Miðvikudaginn 01. febrúar 2006, kl. 13:01:27 (4065)


132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skattalegt umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða.

[13:01]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta er merk umræða sem hér hefur farið fram. Ég held hins vegar að hv. þingmaður þurfi að gæta sín á því að einfalda ekki málið um of. Kaupskipaútgerðirnar eru út af fyrir sig ekki á förum. Skipin eru hins vegar farin fyrir þó nokkru síðan og nú er um að ræða skráningu á áhöfnum sem eru að fara.

Mér fannst hv. þm. Kristján Möller skauta allt of létt yfir það að skatttekjur sveitarfélaganna gætu komið þar að máli og er ég hissa á að hann skyldi gera það þannig. (Gripið fram í.) Það skiptir verulega miklu máli að það sé samhljómur meðal hagsmunaaðila um það til hvaða ráðstafana er gripið ef til einhverra ráðstafana verður gripið. En þá eru það líka tvö atriði sem við þurfum að huga að, skráning skipanna sem lögð hefur verið veruleg áhersla á hér í umræðunni og ekki síst hjá hv. málshefjanda og síðan skráning áhafnanna. Um það hvernig á að standa að þessu geta verið deildar meiningar.

Þegar við förum yfir það hvernig þessu er fyrir komið hjá nágrannaþjóðum okkar er það bara gert á mjög mismunandi vegu. Það er auðvitað rétt að við þurfum að fara vel yfir þessa hluti, og ef við gerum eitthvað að gera þá það sem best er. En við verðum að gefa okkur þann tíma sem við þurfum til þess að finna út úr því og, eins og ég sagði áðan, að hafa um þetta samhljóm meðal hagsmunaaðilanna og ekki gera þetta í einhverjum upphlaupum. Svo þurfum við, eins og ég sagði hér áðan, að leggja til grundvallar líka að það samrýmist eftir því sem kostur er þeim almennu markmiðum sem við höfum.