Nýting vatnsafls og jarðvarma

Miðvikudaginn 01. febrúar 2006, kl. 13:32:28 (4077)


132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er óskaplega erfitt að gera hv. þingmönnum til hæfis í þessu máli. (Gripið fram í.) Það eru alltaf einhverjar óánægjuraddir um hvernig verið sé að vinna að þessari rammaáætlun. Þetta er stórmerkilegt plagg sem nú þegar liggur fyrir og þá er ég að tala um niðurstöðu 1. áfanga. Þetta eru umhverfisrannsóknir í víðasta skilningi þess orðs. Starfið heldur áfram. En það er hægt að finna að öllu, ég geri mér alveg grein fyrir því og hv. þingmenn eru nú býsna fundvísir á hluti sem þeir telja að séu miður.

En það sem ég vil segja um 1. áfanga, af því að því er haldið fram að hann sé ekki til neins, þá eru þar náttúrlega mikilvæg gögn fyrir t.d. orkufyrirtækin þegar þau taka ákvarðanir um hvar þau bera niður. Til dæmis hefur þetta áhrif á að ekki er verið að eyða peningum í rannsóknir á svæðum sem eru ólíkleg til að vera í raun svæði sem verða nýtt í framtíðinni. Þetta gagnast sveitarfélögum, t.d. í tengslum við skipulag og þessar rannsóknir hafa haft áhrif í sambandi við tillögur um friðlýsingu á náttúruverndarsvæðum. Ég tel því að þarna sé um mikilvæga gagnasöfnun að ræða, eins og ég kom inn á í máli mínu áðan. Þetta hefur vakið athygli, ég segi ekki alveg á heimsvísu, en víða erlendis.

Þetta hefur kostað gríðarlega fjármuni og búið er að tryggja fjármuni til 2. áfanga og það eru endurgreiðslur Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar sem nýttar verða í 2. áfanga en það voru endurgreiðslur vegna Blöndu- og Fljótsdalsvirkjana sem voru nýttar vegna 1. áfanga.