Framtíð Hönnunarsafns Íslands

Miðvikudaginn 01. febrúar 2006, kl. 13:54:04 (4089)


132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Framtíð Hönnunarsafns Íslands.

265. mál
[13:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um framtíð Hönnunarsafns Íslands og hvað líði samningaviðræðum við bæjaryfirvöld í Garðabæ um framtíð þess, en sem stendur er Hönnunarsafn Íslands til húsa að Lyngási 7–9 í Garðabæ. Það fékk þar inni í bráðabirgðahúsnæði í gamla fjölbrautaskólanum eins og reyndar til skamms tíma skrifstofur og hluti af starfsemi Þjóðminjasafnsins.

Forstöðumaður hönnunarsafnsins, Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, hefur þar aðstöðu, ég veit ekki hve margir starfsmenn eru þar en þeir eru sárafáir. Þarna er líka geymsla til húsa sem hýsir muni hönnunarsafnsins. Hún er nú svo yfirfull að eftir því sem ég kemst næst verður þar vart drepið niður fæti. Eða eins og segir í grein eftir Gísla Sigurðsson í Morgunblaðinu sunnudaginn 12. júní í sumar, þar sem Gísli var að benda okkur á og brýna okkur um að Hönnunarsafn Íslands þyrfti veglegt hús, þá segir Gísli um þrengslin í geymslum hönnunarsafnsins að Aðalsteinn sé hættur að taka við munum sem bjóðast og hann segir, með leyfi forseta: „Það er einfaldlega ekki hægt að koma þeim fyrir. Ekki vantar almennan áhuga á að koma merkilegum hlutum í safnið, fólk hringir stöðug.“

Kveikjan að þessari fyrirspurn var einmitt sú að ég hringdi í Hönnunarsafn Íslands og ætlaði að gefa því hlut sem mér áskotnaðist og ég taldi að ætti betur heima þar en taka pláss í mínum skápum og þá fékk ég nákvæmlega þessi svör. „Því miður Kolbrún mín, hér er allt yfirfullt, það er ekki nokkur möguleiki fyrir okkur að taka við nokkru snifsi hingað meir. Við skráum hins vegar svona hringingar og vitum þá af þeim en við vitum ekkert hvenær við getum tilkynnt ykkur, sem eruð að ánafna okkur munum, að nú sé komið pláss eða að nú gætum við mögulega tekið við hlutunum.“

Ég held að þetta ófremdarástand geti ekki varað öllu lengur. Hönnun skiptir okkur sífellt meira máli. Listaháskóli Íslands útskrifar fleiri hönnuði á hverju einasta ári, hópur hönnuða útskrifast þaðan. Hér er að verða til mjög merkileg íslensk hönnun, viðbót við það sem hönnunarsafnið geymir fyrir okkur. Ég tel að það sé mjög raunhæft að Hönnunarsafn Íslands geti orðið verulega gott safn á alþjóðlegan mælikvarða og að við eigum að setja markið hátt í þeim efnum. Ég tek undir þau orð Gísla Sigurðssonar í fyrrnefndri grein þar sem hann segir að safnið eigi ekki heima í ofur venjulegu húsnæði, setja þurfi markið hátt og koma verði til sérhönnuð bygging.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvað líður samningaviðræðum, sem hafnar voru fyrir nokkuð löngu, við bæjaryfirvöld í Garðabæ um framtíð Hönnunarsafns Íslands?