Vasapeningar öryrkja

Miðvikudaginn 01. febrúar 2006, kl. 14:59:51 (4118)


132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Vasapeningar öryrkja.

324. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Hann hyggst ekki koma á aldurstengdri uppbót eða hækkun fyrir þessa öryrkja, þessa 240 sem eiga heimili sitt inni á sjúkrastofnun, sem margir hverjir eru langveikir, geðsjúkir öryrkjar. Það harma ég.

En ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að endurskoða þetta fyrirkomulag. Það er auðvitað löngu úrelt og gamaldags og verður að endurskoðast. En á meðan verið er að endurskoða það er þarna hópur sem býr við lakari kjör en aðrir. Þessi hópur er upp á aðstandendur sína kominn með framfærslu. Ég hef verið í sambandi við aðstandendur geðsjúkra, þessara langveiku einstaklinga sem eru á þessum sjúkrastofnunum enn þá, sem verður vonandi fljótlega liðin tíð, og þetta fólk er algjörlega upp á aðstandendur sína komið. Þetta eru oft geðsjúkir, þeir reykja, sem er kostnaðarsamt, og þeir geta ekki keypt sér föt til skiptanna fyrir þessa peninga, hvað þá leyft sér nokkuð annað.

Ég bið hæstv. ráðherra að skoða hvort ekki sé ástæða til að bæta kjör þessa hóps, þessara fáu einstaklinga þangað til búið er að afnema þetta gamaldags og niðurlægjandi kerfi sem vasapeningakerfið er. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það þarf að endurskoða. Þangað til búið verður að laga það þarf auðvitað að koma þessum hópi til einhverrar aðstoðar þannig að hann þurfi ekki að búa við það að geta í rauninni á engan hátt bætt kjör sín og sé alltaf upp á sína nánustu kominn ef hann ætlar að leyfa sér nokkurn skapaðan hlut.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það og síðan þegar vasapeningakerfið verður aflagt, sem verður vonandi fljótt, fellur þetta náttúrlega um sjálft sig. En þetta fólk hefur aldrei fengið þessa aldurstengdu uppbót sem aðrir hafa fengið sem halda sínum lífeyrisgreiðslum.