Hjúkrunarþjónusta við aldraða

Miðvikudaginn 01. febrúar 2006, kl. 15:11:11 (4124)


132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Hjúkrunarþjónusta við aldraða.

423. mál
[15:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um hjúkrunarþjónustu við aldraða og þá er ég aðallega að spyrjast fyrir um þjónustu við hjón og sambúðarfólk. Af og til leita til mín aðstandendur aldraðra vegna þess að hjón hafa þurft að vistast hvort á sínu öldrunarheimilinu. Þau hafa liðið fyrir það og finnst það óviðunandi og það hefur haft í för með sér að þessum einstaklingum hefur hrakað hraðar og vanlíðan þeirra hefur aukist.

Það er ekki endilega að öll hjón vilji vistast saman en sum vilja það og jafnvel systkini eða aldraðar mæður með fullorðin börn sín o.s.frv. Þetta fólk hefur, vegna þess hve biðin er löng inn á hjúkrunarheimilin, lent í því að vistast hvort á sínum staðnum.

Núna eftir jólin fékk ég erindi af þessu tagi inn á borð til mín frá ungum manni sem sendi mér tölvupóst og ég var í samskiptum við eftir það.

Mig langar aðeins að vitna í þennan póst, með leyfi forseta:

„Ég sendi þér þennan póst til að leita ráða hjá þér út af aðstæðum sem amma mín og afi eru í nú á síðustu árunum, aðstæðum sem ég get ekki lýst öðruvísi en ömurlegum og óþolandi.

Þannig er mál með vexti að afi minn hefur ekki getað búið heima hjá sér í tvö ár vegna veikinda og býr nú á hjúkrunarheimili. Amma mín býr hins vegar heima þrátt fyrir að vera orðin ansi kölkuð og brothætt, bæði á sál og líkama. Eins og eðlilegt er langar þau mest af öllu að fá að búa saman þó ekki væri nema undir sama þaki en það er ekki hægt. Það er ekki til pláss og amma ekki orðin „nógu veik“ til að komast neins staðar inn.

Ég upplifi það að amma mín og afi eru bæði þunglynd og gráta hvort í sínu lagi af einmanaleik og söknuði vegna þess að þau geta ekki verið saman síðustu ár ævi sinnar.“

Síðan lýsir þessi ungi maður því hve miklar áhyggjur fjölskyldan hefur af þessu og líður fyrir hvernig komið er fyrir hennar nánustu. Hann segir síðan í bréfinu að hann skammist sín fyrir að búa í samfélagi sem getur ekki tryggt gamla fólkinu ánægjulegri aðstæður en þetta.

Ég hafði samband við nokkur hjúkrunarheimili í kjölfarið á þessu bréfi og allir þekktu einhver dæmi um að fólk hefði þurft að vistast hvort á sínu heimilinu. Það voru ekki til neinar tölur um þetta en það voru ýmis dæmi.

Þess vegna ákvað ég að leggja þessa fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra:

1. Hversu margir makar vistmanna á öldrunarstofnunum eru nú á biðlista eftir að komast einnig á öldrunarstofnun?

2. Hversu margt fólk í hjónabandi eða sambúð er ekki vistað á sömu öldrunarstofnun og makinn? Hve margir hafa verið vistaðir þannig á undanförnum fimm árum?

3. Finnst ráðherra boðlegt að aðskilja öldruð hjón eða sambýlisfólk mánuðum og árum saman síðustu æviárin á þennan hátt?