Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 11:34:42 (4176)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Samanburður við önnur lönd er alltaf ágætur. Ég vil nefna Svíþjóð hér til sögunnar sem hefur bara ákveðið prósentuhlutfall af nemendum sem þeir heimila inngöngu án stúdentsprófs. Ég vil líka undirstrika að við verðum að fara mjög varlega með þessa heimild. Þessi heimild verður engu að síður að vera til staðar. Hún er mikilvæg upp á fjölbreytni innan skólakerfisins. En ég held að við verðum að fara varlega með hana. Við verðum að treysta háskólunum til að meta einstaklingana, hvort þeir komi til með að styrkja háskólastarfið og efla samfélagið. Um leið og ég segi þetta er ég að sjálfsögðu að hugsa til framhaldsskólans því við gerum ríkar kröfur til stúdentsprófs og megum því ekki gjaldfella kröfur um inntöku í háskóla.