Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 14:46:11 (4204)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:46]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað gott að verið sé að vinna að þeim frumvörpum og greinilegt að ekki er ljóst að hvort þau verða lögð fram á þessu þingi. Þess vegna verður erfitt að taka þau til vinnslu í menntamálanefnd samhliða því frumvarpi sem nú liggur fyrir.

Hæstv. ráðherra ræddi einnig í ræðu sinni um samkeppni á milli skólanna og allt gott um það að segja að vissu marki vegna þess að samkeppni sem slík getur vissulega verið góð og hefur sannarlega leitt margt gott af sér á háskólastiginu. Hins vegar er spurningin hvaða mörkum hún er háð og ýmislegt sem veldur því að samkeppni getur t.d. verið ósanngjörn. Það er eitt af því sem menn hafa rætt um varðandi fjármögnun háskólanna, þ.e. að skólarnir sem hafa heimild til að taka skólagjöld geta haft úr miklu meira fjármagni að moða varðandi sambærilegt nám og rekið er t.d. í ríkisháskólum. Þetta er þekkt gagnrýni frá Háskóla Íslands varðandi t.d. ákveðið nám í viðskiptafræðum þar sem verið er að bjóða (Forseti hringir.) það í hinum skólunum líka en hann hefur ekki möguleika á að afla sér sömu tekna (Forseti hringir.) til að geta setið við sama borð.