Grunnskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 17:41:40 (4252)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[17:41]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom að sama atriði í andsvari við hæstv. menntamálaráðherra áðan, þ.e. það upplegg að sveitarfélögin geti sagt nei. Ég held að raunverulega verði það skref aftur á bak ef sveitarfélögin neyðast til að segja nei við því að slíkir skólar séu starfræktir, af þeirri einföldu ástæðu að þau hafi ekki í sínu eigin valdi að ákveða fjárframlögin af því að löggjafinn hafi skikkað þau til að greiða lágmarksframlag. Ég tel að það haldi ekki.

En ég tek undir með hv. þingmanni, að auðvitað mun menntamálnefnd fara yfir þetta. Ég er sannfærður um það að skoðun hv. þingmanns er röng. Ég mun því halda áfram lestrinum þaðan sem frá var horfið áðan, með leyfi forseta:

„Lögbinding lágmarksfjárframlaga til sveitarfélaga til einkarekinna grunnskóla með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 2. málslið 2. mgr. 23. gr. frumvarpsdraganna er andstætt því almenna viðhorfi og brýtur í bága við sjónarmið um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og markmið sveitarstjórnarlaga.

Reynslan sýnir að einkareknir grunnskólar verða tæpast reknir nema til komi fjárframlag frá hlutaðeigandi sveitarfélagi. Eðlilegt er því að lögbinda að sveitarfélag sem samþykkir stofnun einkarekins grunnskóla skuli jafnframt greiða til hans rekstrarframlag til að styðja eðlilegan rekstrargrundvöll viðkomandi skóla í samræmi við stöðugildi starfsmanna og fjölda nemenda.“

Ég les nú enn á ný tillögu frá meiri hluta stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Lagt er til að 2. mgr. 23. gr. hljóði svo, til að fullnægja sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Grunnskólar sem hljóta lögbindingu samkvæmt 1. mgr. eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Framlag skal ákveðið af sveitarstjórn og getur verið mismunandi eftir nemendafjölda og rekstrarumfangi skóla.“

Frú forseti. Lykilatriðið er að sveitarstjórnin sjálf ákveði framlagið.