Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 13:46:09 (4374)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það þannig með hlutafélög að þau eru fyrst og fremst form til að hlutirnir séu í sjálfu sér markaðsvara. Það er megintilgangurinn með hlutafélögum. Í öðru lagi að geta innheimt arð, geta látið hlutafélagið greiða sér arð. Hlutafélag í opinberri eigu eins og hæstv. ráðherra nefndi um Rarik eða Ríkisútvarpið, ég sé ekki að það ætti að vera nauðsynlegt að breyta þeim í hlutafélag ef þessi meginatriði eiga að fá að njóta sín, þ.e. að hlutirnir geti gengið kaupum og sölum og tekið út arð úr fyrirtækinu.

En hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni um upplýsingalögin. Hvers vegna er ekki almenn upplýsingaskylda látin gilda um þetta form á rekstri ríkisfyrirtækja? Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver á að fara með hlutabréfið í opinberu ríkishlutafélagi? Ég hygg að fjárreiðulögin vísi til þess að hin almenna regla sé sú að það sé fjármálaráðuneytið. Að minnsta kosti uppgjörið, reikningsskil og annað því um líkt heyrir að ég best veit undir það ráðuneyti. Nú hefur þetta verið svolítið hipsum haps varðandi hlutafélög sem hingað til hafa verið stofnuð á vegum ríkisins. Við þekkjum það t.d. með hlutafélagið um Símann sem heyrði undir samgönguráðherra lengi vel þangað til ákveðið var að taka það undan samgönguráðherra og setja það undir fjármálaráðherra. Mér finnst stjórnsýslulega hvað varðar stöðu ríkishlutafélaga innan framkvæmdarvaldsins eigi það ekkert að vera á reiki eða vera geðþóttaákvörðun hverju sinni, (Forseti hringir.) heldur þykir mér eðlilegt að þetta sé á vegum og ábyrgð eins ráðuneytis, frú forseti, og spyr þess vegna hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um það.