Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 13:48:29 (4375)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:48]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég hef kannski ekki hlýtt alveg nógu vel á hv. þingmann. Ég átta mig ekki alveg á hvert hann var að fara, hvort hann var að tala um eignarhaldið. (Gripið fram í.) Já, hver fer með eignarhald í viðkomandi fyrirtæki. Eins og er með orkufyrirtækin þá fer iðnaðarráðherra með eignarhald í þeim. Þetta er svo sem mál sem hefur áður verið rætt hér og ég þekki þær skoðanir ýmissa hv. þingmanna að þetta eigi að vera með öðrum hætti en tek ekki undir það, a.m.k. að svo stöddu.

Síðan velti hv. þingmaður fyrir sér þessu með upplýsingalögin, af hverju þau gildi ekki um hlutafélög almennt í eigu ríkisins. Það hefur aldrei verið með þeim hætti. Og við erum með þessu litla frumvarpi að stíga þó a.m.k. skref í þá átt með því að auka upplýsingaskyldurnar gagnvart almenningi og það held ég að hljóti nú að vera aðalatriðið. Við erum að tala um fyrirtæki í samkeppnisrekstri eins og hv. þingmaður nefndi og þess vegna held ég að ekki færi vel á því að upplýsingalögin almennt giltu um þessi félög.