Hlutafélög

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 13:57:41 (4380)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[13:57]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, sem er frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög og felur í sér að í hlutafélagalögin komi ákvæði um opinber hlutafélög, er löngu tímabært og hefur raunar verið eftir því kallað í þingsölum af hálfu stjórnarandstöðu, að minnsta kosti á síðasta þingi og líklega þinginu þar áður líka.

Þannig átti þingmaður Samfylkingarinnar, Mörður Árnason, nokkra orðræðu við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um þetta mál á síðasta þingi og spurðist sérstaklega fyrir um hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir því að slík lög yrðu sett, eða þ.e. í hlutafélagalög kæmu ákvæði um opinber hlutafélög. Þá svaraði hæstv. ráðherra á þá leið að hún hefði ekki hugleitt það sérstaklega að slík ákvæði þyrftu að koma inn í lög. Ef hins vegar tilefnið kæmi upp og sterk rök væru fyrir því, þá mundi hún skoða það með opnum huga.

Nú er frumvarpið fram komið þannig að eitthvað hlýtur að hafa gerst sem hafi ýtt við ráðherranum og gert það að verkum að ráðherrann taldi ástæðu til að koma með frumvarp í þingið. Hvað það er, veit ég ekki, hvort það er frumvarp um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi sem ýtti svona við ráðherranum, hvort það var hin almenna umræða í samfélaginu eða hvort það var sú ákvörðun þingflokks Samfylkingarinnar sem kynnt var í haust að koma með slíkt frumvarp í þingið. Ég veit ekki hvað það var en alla vega taldi ráðherrann ástæðu til að mæla fyrir þessu frumvarpi og það er gott. Það er ágætt ef það verður tryggt að í hlutafélagalögin komi ákvæði um hlutafélög í opinberri eigu, um opinber hlutafélög.

Hins vegar hlýt ég að lýsa vonbrigðum með frumvarpið sem hér liggur fyrir og hve rýrt það er að innihaldi. Ég ætla að ræða um það efnislega og fara yfir nokkur atriði. Við þá umræðu hlýt ég, virðulegi forseti, að gera nokkurn samanburð á þessu frumvarpi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og frumvarpi sem við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, flytjum og ég er fyrsti flutningsmaður að. Það er á dagskrá síðar í dag þ.e. 7. dagskrárliður á á útsendri dagskrá.

Ég hlýt að bera þessi tvö frumvörp saman og gera nokkra grein fyrir því að hvaða leyti þau eru frábrugðin hvort öðru. Það eru þau í nokkrum veigamiklum atriðum.

Ég vil í fyrsta lagi nefna 1. gr. þessa frumvarps iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem segir:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera á að öllu leyti.“

Í frumvarpi sem við í Samfylkingunni flytjum og er á dagskrá síðar í dag segir:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem íslenska ríkið eða sveitarfélag hefur sömu tengsl við og móðurfélag hefur við dótturfélag, sbr. 1. mgr. 2. gr.“

Þetta þýðir á mannamáli að átt sé við hlutafélög sem ríki eða sveitarfélög fara með meiri hluta atkvæða í en það er ekki þannig að ríkið eða sveitarfélögin þurfi að eiga þau að öllu leyti heldur fari þau með meiri hluta atkvæða í félögunum. Á þessu er auðvitað mikill munur. Strax í skilgreiningunni á opinberu hlutafélagi liggur mikill munur.

Í öðru lagi vil ég nefna, virðulegi forseti, að í frumvarpi okkar í Samfylkingunni er ákvæði þess efnis að hlutur íslenska ríkisins í opinberu hlutafélagi verði ekki seldur nema fyrir liggi samþykki um það á Alþingi. Jafnframt er kveðið á um að hið sama eigi við um hlut sveitarfélags í slíku fyrirtæki, að samþykki sveitarstjórna þurfi til og í samþykktum um slík félög megi jafnframt áskilja að aukinn meiri hluta þurfi í sveitarstjórn eða á Alþingi til að viðkomandi félag verði selt. Þetta finnst mér mikilvægt.

Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar, svo það komi fram, að eðlilegt væri að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag. En þá hefði ég líka talið rétt að inn í samþykktir um Orkuveitu Reykjavíkur kæmi ákvæði þessi efnis að aukinn meiri hluta þyrfti í borgarstjórn Reykjavíkur til að selja megi hlut borgarinnar í því félagi. Ég vil ekki, um ófyrirsjáanlega framtíð, eiga það undir meiri hluta sem vonandi verður aldrei í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. sjálfstæðismanna, að þeir geti selt fyrirtækið án þess að menn fengju rönd við reist, þegar þeir komast í sölumannshugleiðingar. Þetta ákvæði er inni í frumvarpi okkar en ekki inni í frumvarpi ráðherrans.

Ég vil líka nefna þau atriði þar sem okkur greinir á, þar sem er stóri munurinn á þessum frumvörpum. Í okkar frumvarpi er gert ráð fyrir að alþingismenn eigi rétt á að sækja hluthafafundi og hafi þar málfrelsi. Sama ætti við um sveitarstjórnarmenn í fyrirtækjum sem eru að meiri hluta í eigu sveitarfélaga. Þessir aðilar eiga rétt á að sækja hluthafafundina og hafa málfrelsi þótt þeir hafi hvorki tillögurétt né atkvæðisrétt.

Þá er mikill munur á þessum frumvörpum hvað varðar upplýsingaþáttinn. Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir að fjölmiðlar geti setið aðalfundi þessara félaga og að opinber hlutafélög skuli birta samþykktir sínar á vefsíðu sinni. En í frumvarpi ráðherrans er ekki mikið meira en þetta um upplýsingaskyldu þessara félaga. Í frumvarpi okkar í Samfylkingunni eru hins vegar nokkuð ítarleg ákvæði um upplýsingaskyldu þeirra. Í okkar frumvarpi segir í 7. gr.:

„Í félagi þar sem íslenska ríkið á meiri hluta hlutafjár skal félagsstjórn og framkvæmdastjóri veita alþingismönnum upplýsingar um starfsemi félagsins og ákvarðanir þess verði eftir því leitað.“

Þar segir jafnframt:

„Beiðni um upplýsingar … skal beina til félagsstjórnar og skal hún vera skrifleg.

Réttur til upplýsinga … skal vera sambærilegur og kveðið er á um í upplýsingalögum, nr. 50/1996, en undanskilja má upplýsingar sem varða samkeppnisrekstur félagsins. Telji félagsstjórn að upplýsingar varði samkeppnisrekstur félagsins skal hún beina fyrirspurn þess efnis til Samkeppniseftirlits. Samkeppniseftirlit skal gefa umsögn um fyrirspurn innan sjö daga frá því að henni var beint til stofnunarinnar.

Þegar um opinbert hlutafélag er að ræða skal almenningur eiga greiðan aðgang að samþykktum félagsins og öðrum stefnumarkandi gögnum, ársreikningum, árshlutareikningum og samstæðureikningum.“

Þarna liggur stóri munurinn á þessum frumvörpum, þ.e. í upplýsingaskyldu þessara félaga. Í frumvarpi okkar er gert ráð fyrir því að hann sé sem næstur því sem kveðið er á um í upplýsingalögum þótt samkeppnisreksturinn sé hugsanlega undanskilinn. En til að félögin fari ekki að víkja sér undan svörum með tilvísun í að um samkeppnismál sé að ræða og upplýsingarnar skuli fara leynt, þá úrskurðar þriðji í þeim efnum. Á þessu er mjög mikill munur, þ.e. frumvarpi ráðherra og frumvarpi okkar í Samfylkingunni.

Þá vil ég nefna enn eitt sem skilur að frumvörpin tvö, þ.e. þegar fjallað er um hlutdeild kvenna í stjórnum félaga. Í frumvarpi ráðherra segir:

„Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal gæta sérstaklega að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

En í frumvarpi okkar segir:

„… skal hlutfall kynja í stjórn vera sem jafnast og hvort kyn um sig skal ekki vera undir 40% fulltrúa stjórnarmanna.“

Á þessum tveimur frumvörpum er því mikill munur, ekki bara bitamunur heldur eðlismunur hvað varðar alla upplýsingagjöf og aðkomu kjörinna fulltrúa að slíkum félögum og rétt til upplýsinga um þau.

Ég tel ástæðu til að kveða á um réttinn til upplýsinga með mjög skýrum hætti vegna þess að sú hætta er fyrir hendi, með opinberan rekstur sem settur er í hlutafélagaform, að hann sameini það versta úr báðum heimum, þ.e. bæði úr opinbera kerfinu og einkarekstrinum. Segja má að stundum sjáist ákveðin merki um ábyrgðarleysi í meðferð valds og fjármuna í slíkum fyrirtækjum þar sem virkt aðhald öflugra hluthafa skortir. Hins vegar er skortur á gagnsæi og takmarkaðar upplýsingar. Þær eru ekki aðgengilegar vegna þess að ákvæði upplýsingalaga eiga ekki við eins og almennt á við í opinberum rekstri. Þannig má segja að fyrirtækin séu tekin út fyrir sviga, lúti hvorki því aðhaldi sem markaðurinn almennt veitir né heldur aðhaldi sem opinberir aðilar eiga að veita slíkum fyrirtækjum. Þetta hefur alið á tortryggni í garð fyrirtækja á vegum hins opinbera sem tekin eru úr opinberum rétti og flutt yfir í einkaréttinn. Fyrir því er auðvitað ákveðin ástæða. Ég vil í því sambandi nefna fyrirtæki eins og Landsvirkjun.

Landsvirkjun er reyndar sameignarfélag. Það er ekki hlutafélag. Það er sameignarfélag en það er komið inn í einkaréttinn úr opinbera réttinum. Mönnum hefur stundum gengið nokkuð erfiðlega að fá upplýsingar innan úr því fyrirtæki. Nú er eðlilegt að sumar upplýsingar sem það fyrirtæki býr yfir fari tiltölulega leynt þar sem fyrirtækið er komið inn í samkeppnisrekstur á ýmsum sviðum. En hættan er engu að síður sú að þeir sem stjórna slíkum fyrirtækjum, hvort sem það eru framkvæmdastjórar eða stjórnir slíkra fyrirtækja, ákveði að skilgreina nokkuð vítt hvað skuli fara leynt.

Ég hef eitt dæmi, svona tekið af handahófi, sem skýrir muninn á opinberum rekstri annars vegar og rekstri einkaréttarlegs eðlis hins vegar. Upp kom mál þar sem reyndi á upplýsingaskyldu Landsvirkjunar og það fór inn í úrskurðarnefnd upplýsingamála og síðan til umboðsmanns Alþingis. Niðurstaða bæði úrskurðarnefndar upplýsingamála og umboðsmanns Alþingis í því máli var að reglur stjórnsýslunnar næðu ekki til Landsvirkjunar. Þar af leiðandi átti sá aðili sem beindi tiltekinni spurningu til Landsvirkjunar, það var reyndar spurning um virkjun eða stíflugerð í Laxá, um uppgræðslu við Kráká og samninga við aðila á Laxársvæðinu, ekki rétt á upplýsingum. Hann var ekki talinn eiga rétt á svari vegna þess að fyrirtækið væri einkaréttarlegs eðlis og færi ekki með stjórnsýsluvald, reglur stjórnsýslunnar og upplýsingalaga ættu ekki við um fyrirtækið.

Ég tel að meðan að fyrirtæki eru í eigu opinberra aðila og hafa aðgang, getum við sagt, eins og stundum er, að ákveðnum mörkuðum eða tekjustofnum, þá eigi sérstaklega þingmenn og sveitarstjórnarmenn, eftir því sem við á, rétt á tilteknum upplýsingum til að gegna aðhaldshlutverki sínu og til þeir fái gætt hagsmuna hinna raunverulegu hluthafa, almennings í landinu. Þótt einstakir ráðherrar fari með hlutabréfið eru hluthafarnir almenningur í landinu.

Ég hef farið yfir muninn á þessum tveimur frumvörpum. Hann er allmikill eins og menn hafa heyrt. Ég verð að játa að þegar ég fer yfir frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra finnst mér eiginlega ekkert í því frumvarpi. Samkvæmt því gerist ekki annað en að nú verður til eitthvað sem heitir opinber hlutafélög. Slík opinber hlutafélög skulu heimila fjölmiðlum að koma á aðalfund félaganna og gæta að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er eiginlega ekki meira í þessu frumvarpi. Það vantar allt sem við á að éta í því og þar af leiðandi finnst mér þetta formsatriði fremur en spurning um innihald. Þótt ég fagni því að ráðherra skuli þrátt fyrir allt hafa stigið það skref að koma með slíkt frumvarp inn í þingið þá finnst mér að í meðförum þingnefnda þurfi að skoða frumvarpið vel og gera þannig úr garði að það gagnist og geti stuðlað að gagnsæi í rekstri og stjórn hlutafélaga í opinberri eigu. Gagnsæi þarf að vera meira en núna er og meira en frumvarpið gerir ráð fyrir.