Útvarpslög o.fl.

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 18:48:08 (4427)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[18:48]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er það þá þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þá stefnu að það eigi að selja Ríkisútvarpið? Eða eru það einungis þeir tveir sem flytja þetta frumvarp?

Eins og hv. þingmaður sagði áðan er hann greinilega búinn að gera það upp við sig að hann ætlar að styðja það vonda frumvarp sem hann var að lýsa hér, líka nefskattinn, þennan hræðilega sem hann var að lýsa með þessum jaðaráhrifum. Hv. þingmaður virðist nú ekki hafa mjög sterka sannfæringu úr því að hann er tilbúinn að styðja svona vonda niðurstöðu.

Ég vonast svo til þess að ég fái betri útlistun á afstöðu hv. þingmanns, að það eigi að nota persónuafsláttinn sem tekjur fyrir útvarpsráðið sem hér er gert ráð fyrir að verði til. Það er einfaldlega búið að lækka persónuafsláttinn svo gríðarlega mikið á þeim tíma sem hv. þingmaður hefur stutt hér ríkisstjórn að það er marg-, marg-, margfalt búið að fjármagna það útvarpsráð sem hér er gert ráð fyrir. Getur hv. þingmaður ekki bara lýst því yfir að það sé nú þegar búið að taka frá fyrir rekstri þessa fyrirbrigðis sem hér er verið að leggja til að verði sett á stofn, sem mér finnst að mörgu leyti — það eru margar ágætar hugmyndir í því sem hér er á ferðinni? Það sem hér er lagt til að verði sett á fót ætti eiginlega miklu frekar að heita menningarráð en útvarpsráð.