Útvarpslög o.fl.

Þriðjudaginn 07. febrúar 2006, kl. 18:49:55 (4428)


132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[18:49]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi stefnu Sjálfstæðisflokksins um RÚV þá er hægt að lesa ályktanir landsfundar í því sambandi. En eins og ég gat um er Sjálfstæðisflokkurinn ekki einn í ríkisstjórn og verður að taka tillit til samstarfsflokksins.

Hvað aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins varðar en þá sem standa að þessu frumvarpi vil ég ekkert segja, þeir geta tjáð sig sjálfir um það. En ég hef þá skoðun að það eigi að selja Ríkisútvarpið og það sé langbest fyrir alla aðila.

Útvarpsgjaldið er einhvers konar nefskattur í dag. Allir sem ætla sér að horfa á sjónvarp yfirleitt, og það gera nú flestir, verða að greiða útvarpsgjald þannig að þetta er einhvers konar nefskattur. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra er greinilega nefskattur þó að sumir sleppi við hann eins og aldraðir. Við erum því að tala um tvenns konar nefskatta sem eru í gangi og svo er persónuafslátturinn neikvæður nefskattur og hví ekki að slengja þessu saman?

Hv. þingmaður sagði að persónuafslátturinn hefði lækkað. Ef við lítum á skattleysismörkin, sem er samspil persónuafsláttar og skattprósentunnar, þá hafa þau lítið sem ekkert lækkað síðustu átta eða níu árin. Það er rangt sem haldið hefur verið fram að skattleysismörkin hafi verið að lækka eitthvað umtalsvert. Það er mjög lítil lækkun á þeim. Aðallækkun skattleysismarkanna var eftir 1988 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var ekki í stjórn. Skattleysismörkin lækkuðu mest 1988, 1989 og 1990. Það var vegna þess að prósentan var stórhækkuð og þær tekjur undir skattleysismörkum sem menn höfðu — sem voru skattfrjálsar — lækkuðu stórlega á þeim þrem árum. Það sem sagt hefur verið um skattleysismörkin (Forseti hringir.) fær að mestu leyti ekki staðist.