Lög um fæðingarorlof -- undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi

Miðvikudaginn 08. febrúar 2006, kl. 12:24:22 (4454)


132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:24]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna hinum ákafa stuðningi sem þingheimur hefur þegar sýnt við þetta litla frumvarp sem við sex þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt. (Gripið fram í: Frumlegt.) Það er auðvitað svo og við erum orðin vön því að þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason, taki að sér það hlutverk að vera eins konar siðakennari þingsins, siðameistari og það fer honum ágætlega og ekkert við því að segja. Ég tek eftir því að hann er nú að skóla eftirmann sinn í þeim efnum, þingflokksformann Frjálslynda flokksins, og ég vona að hann skólist og þjálfist líka í því þannig að hann verði jafnáheyrilegur og skemmtilegur á að hlýða og Hjálmar Árnason.

Um þetta frumvarp er það að segja að það er að sjálfsögðu flutt með beinni tilvísun til fjölmiðlanefndarinnar, þeirrar sem síðast starfaði, (Gripið fram í: Nú?) enda gerð mjög rækileg grein fyrir því í athugasemdum við frumvarpið eins og minnst hefur verið á. Það er því ekkert verið að fela. Það er frekar öfugt, að verið er að segja það beinlínis. Hins vegar er frumvarpið sjálft auðvitað frá flutningsmanni og þeim sem bjuggu það út með honum. Og vert er að skoða það vegna þess að það hefur verið haft á orði af ýmsum málsmetandi mönnum að þetta sé svo flókið mál, það sé svo flókið að setja þessar mikilvægu reglur. Það er ekki flóknara en þetta sem sést í frumvarpinu.

Það er flutt vegna þess að að okkar áliti er þetta brýnasti þátturinn í fjölmiðlalöggjöf sem væntanleg er, svo brýn að nú standa yfir sérstök deilumál út af enska boltanum, 365, breiðbandinu og Skjá einum sem frumvarpið mundi ef að lögum yrði skera á.

Athugasemdir við það að menn hafi sig í frammi á þinginu, ætli þingmenn verði ekki bara fyrr og síðar að þola þær og ég þakka að lokum fyrir þá umræðu sem farið hefur fram (Gripið fram í.) um þetta merka mál.