Embætti útvarpsstjóra

Miðvikudaginn 08. febrúar 2006, kl. 12:29:45 (4456)


132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að ónáða þessa líflegu umræðu sem fer fram í þingsalnum en það er víst gert ráð fyrir því í dagskrá þingsins að hér fari fram fyrirspurnir. Að vísu fóru fram fyrirspurnir áðan á undan fyrirspurnatímanum þannig að menn hafa fengið nokkra upphitun í því.

Ég vil snúa mér að þeirri fyrirspurn sem ég hef borið fram til hæstv. menntamálaráðherra um embætti útvarpsstjóra. Þegar starf útvarpsstjóra var auglýst í júnímánuði síðasta sumar vakti það athygli mína að engar kröfur voru gerðar til væntanlegs útvarpsstjóra um menntun eða starfsreynslu. Í útvarpslögum eru engin ákvæði um það að finna en þrátt fyrir að svo sé gilda um ráðningu opinberra starfsmanna sérstök lög, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996. Á grundvelli þeirra laga hafa verið settar reglur af fjármálaráðherra, nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum.

Þar er kveðið á um í 4. gr. þeirra reglna, 7. staflið, að í auglýsingu skuli vera upplýsingar um hvaða menntunar og/eða hæfniskröfur eru gerðar til starfsmanns þannig að fjármálaráðuneytið sem setur reglur á grundvelli laganna fyrir hönd hins opinbera gerir ráð fyrir að upplýsingar séu veittar um þessi atriði.

Umboðsmaður Alþingis hefur bent á að það sé óskráð meginregla stjórnsýsluréttar að ákvörðun verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, svo sem menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim eiginleikum sem geta skipt máli varðandi starfið. Enn fremur er í starfsmannastefnu Stjórnarráðsins gert ráð fyrir að vandað skuli til mats á umsóknum, leitað til sérfræðinga við mat á þeim sé þess talin þörf. Áður en starf er auglýst skuli liggja fyrir skilgreining á starfinu og hæfniskröfur mótaðar á grundvelli slíkrar skilgreiningar.

Það vakti athygli mína, virðulegi forseti, að enginn þeirra 23 sem sóttu um starfið var boðaður í viðtal en á meðan á umsagnarfresti stóð var einn umsækjandi sem bað um og fékk viðtal við hæstv. menntamálaráðherra. Þetta finnst mér mjög sérkennilegt og ekki til eftirbreytni. Af þeim ástæðum hef ég leyft mér að bera fram þær tvær fyrirspurnir sem er að finna á þskj. 298 og útbýtt var í þingsalnum 8. nóvember 2005.