Réttur sjúklinga við val á meðferð

Miðvikudaginn 08. febrúar 2006, kl. 13:21:38 (4477)


132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Réttur sjúklinga við val á meðferð.

430. mál
[13:21]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er afar brýn fyrirspurn sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir leggur hér fram. Í staðinn fyrir að lesa upp einhverjar skýrslur og hugleiðingar embættismanna í ráðuneytinu mundi ég óska eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra tæki verulega til skoðunar óhefðbundnar lækningaaðferðir. Ég þekki það frá Þýskalandi að þar eru t.d. hómópatar viðurkenndir eins og venjulegir læknar og sem betur fer hefur tekist með læknastéttinni að virkja þann kraft sem þar býr. Það eru mýmörg dæmi um að fólk hafi annaðhvort læknast algerlega eða að hægt hafi verið að lina þjáningar þess verulega með óhefðbundnum lækningaaðferðum, nálastungum, (Forseti hringir.) hómópatískum aðferðum eða náttúrulækningum almennt. (Forseti hringir.) Við megum ekki vera í einhverju gömlu fari í þessum málum.

(Forseti (DrH): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða ræðutímann, hann er bara ein mínúta og menn verða að taka tillit hver til annars.)