Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 10:55:03 (4554)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:55]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel merkustu tíðindin af viðskiptaþingi í gær vera hina hvössu gagnrýni Ágústs Guðmundssonar í Bakkavör á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem hann leiddi rök að því að sú gríðarlega uppbygging og áhersla á stóriðju og álver sem komið hefur fram í áformum hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur og hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar sem því miður er fjarri, og Sjálfstæðisflokksins einnig, að hún stangist á við þau skilyrði sem við þurfum að búa þeim fyrirtækjum sem eru fyrirtæki framtíðarinnar á Íslandi, hátæknifyrirtækjunum og útrásarfyrirtækjunum.

Einhver urgur er hér í þinginu þessa dagana og mikið fundið að því sem menn segja og gera og það verður hver að hafa það fyrir sig. En ég verð að segja að ég er alltaf heldur glaður þegar Halldór Ásgrímsson dettur inn í það hlutverk að vera Evrópusinni, sem hann gerir svona tvisvar á ári þegar Framsóknarflokknum hefur vegnað eitthvað illa í skoðanakönnunum.

Ég hef fulla samúð með þeim sjónarmiðum Halldórs Ásgrímssonar og fleiri sem telja að fáránlegt sé að útiloka eina, aðeins eina atvinnugrein á Íslandi frá því að njóta aðgangs, venjulegs, heilbrigðs aðgangs að erlendu fjármagni. Málið er náttúrlega þannig og það verður hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, og liðsmenn hans í tveimur flokkum hér að skoða og líta í eigin barm því að umbúnaðurinn um þessa auðlind er þannig að ríkisstjórnarflokkarnir hafa leynt og ljóst stefnt að því að hún verði að einkaeign, einkaeign útgerðarmanna og fjármálamanna í landinu. Það er í raun og veru eina hindrunin sem ég sé í vegi fyrir því að veita greininni aðgang að fjármagni. Ef við getum búið svo tryggilega um að þetta yrði þjóðareign, eins og við samfylkingarmenn höfum stefnt að, sé ég ekkert á móti því að þessi grein njóti sama aðgangs að erlendu fjármagni og aðrar greinar á Íslandi.