Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 10:59:02 (4556)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:59]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið áhugaverð umræða en gallinn við hana er auðvitað sá að menn hafa verið nokkuð að oftúlka þau orð hæstv. forsætisráðherra sem hann lét falla á viðskiptaþinginu í gær: Ég tel líka tímabært að endurskoða fyrri ákvarðanir sem takmarka fjárfestingu erlendra aðila í tilteknum atvinnugreinum, t.d. í sjávarútvegi. Með þeim orðum var hæstv. forsætisráðherra út af fyrir sig ekki að opna á það sem við höfum verið að ræða almennt um vegna þess að auðvitað geta verið ýmsir hlutir varðandi eignarhald útlendinga í sjávarútvegi sem hægt er að skoða. Við tókum á sínum tíma t.d. um það sérstaka ákvörðun, eftir að við höfðum áður breytt lögum varðandi óbeina eignaraðild útlendinga að sjávarútvegi, að breyta þeim lögum aftur til að opna á möguleika á óbeinni eignaraðild. Ég tel að það hafi tekist mjög vel og það sé mjög skynsamlegt eins og það er.

Það eru líka, eins og ég nefndi áðan, möguleikar á fjárfestingum útlendinga í markaðshluta sjávarútvegsins og það hefur verið að gerast. Það hefur líka tekist vel og við sjáum hvernig þau fyrirtæki hafa verið að sækja fram á útlendum markaði, m.a. með því að eignast útlend fyrirtæki og það mun auðvitað gerast með þeim hætti einhvern tíma að einnig verði um að ræða sameiningar og þá komast útlendingar inn í þann hluta sjávarútvegsins.

Það er sjálfsagt mál að við förum yfir þessa hluti alla saman. En kjarni málsins er sá sem ég var hér að segja; það er þessi spurning um að tryggja veiðiréttinn. Það sem ég lagði aðaláherslu er að bein fjárfesting útlendinga í sjávarútvegi sem gæfi útlendingum veiðirétt í íslenskri landhelgi sé ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar og það held ég að sé enginn ágreiningur um. Það sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar voru að reyna að segja áðan, að hægt væri á einhvern hátt að tryggja það að þó að útlendingar eignuðust fyrirtækin þá væri ákvæði í stjórnarskrá sem mundi gera það að verkum að það hefði ekki áhrif á nýtingarréttinn í íslenskri landhelgi. Það gengur auðvitað ekkert upp. Það er einfaldlega þannig að þó að við hefðum ákvæði í stjórnarskránni eða hvernig sem við reyndum að tryggja það, sem gæfi hins vegar möguleika á því að útlendingar eignuðust hér veiðiréttinn, þá væri forræði okkar yfir landhelginni, veiðiréttinum og fiskimiðunum horfið. Ég tel að það eigi að snúast um þetta og við eigum að setja línuna þar og (Forseti hringir.) þaðan eigum við einfaldlega ekki að hvika.