Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Fimmtudaginn 09. febrúar 2006, kl. 15:07:03 (4637)


132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:07]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þær 15 mínútur sem við höfum til að ræða þær tillögur og skýrslu sem nú eru til fyrri umr. er knappur tími. En við erum sem sagt að ræða tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 2006–2009. Auðvitað hefði þessi áætlun átt að fara fram fyrir ári síðan. Tillagan kom seint fram og þess vegna erum við að ræða hana núna þegar hún hefði átt að vera komin til framkvæmda. Þetta er enn eitt dæmið um hversu mikið olnbogabarn byggðamál eru í iðnaðarráðuneytinu og hjá hæstv. byggðamálaráðherra Valgerði Sverrisdóttur.

Það er einmitt þess vegna, virðulegi forseti, sem ég ásamt ýmsum öðrum þingmönnum mun leggja fram á næstu dögum, ef það hefur ekki þegar komið fram, frumvarp til laga um að færa málefni landsbyggðarinnar, eða byggðamálin, úr iðnaðarráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Það er auðvitað gert vegna þess hvað margt hefur miður farið og gengið illa í höndum iðnaðarráðherra hvað varðar byggðamál þótt svo sannarlega megi tala um ýmsa þætti sem vel hafa tekist, svo því sé líka haldið til haga. En það eru margir þættir, og allt of margir þættir, þyngstu þættirnir sem hafa farið illa og ekki hefur verið tekið á. Ég held því að það sé nauðsynlegt að færa þetta aftur frá iðnaðarráðuneytinu til forsætisráðuneytis, til að leggja áherslu á hvað málaflokkurinn er mikilvægur þá sé það forsætisráðherra sem haldi utan um málaflokkinn og stýri því að ráðherrar í ráðherraliði hans vinni markvisst að þeirri stefnu sem þarf að vinna og er mörkuð hér á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég sagði að hér yrði líka litið yfir farinn veg, litið yfir það sem hefur verið gert. Í þessari skýrslu sem ég gerði athugasemd við í upphafi, sem er nákvæmlega eins og skýrslurnar síðustu tvö ár, ekkert hefur breyst í því, kemur dálítið athyglisvert fram. Það er að í umsögn og skrifum frá Byggðastofnun eru margir aðilar sem láti í ljós það sjónarmið að markmið byggðaáætlunar hafi verið góð en að nokkuð skorti á að þeim hafi verið fylgt eftir og að þau hafi verið framkvæmd. Ljóst er að þannig er um nokkur sveitarfélög, þau telja sig afskipt í byggðaaðgerðum.

Síðan hefst upptalning. Frá Vesturlandi kemur fram það sjónarmið að hlutur Vesturlands í byggðamálum hafi verið rýr nema sem þátttakandi í almennum byggðaaðgerðum. Vestfirðingar segja að ekki hafi náðst að stöðva fækkun íbúa og starfa, og árangur að því leyti ekki viðunandi. Á Norðurlandi vestra koma fram almenn sjónarmið um að landshlutinn hafi verið afskiptur í aðgerðum stjórnvalda í byggðamálum. Sama er úr Þingeyjarsýslum en þar kemur fram sambærileg gagnrýni um að lítið fari fyrir hagsmunum Þingeyinga í framkvæmd samningsins. Í svörum af Suðurlandi kemur m.a. fram að Vestmannaeyingar telji að möguleikar á að flytja störf á vegum hins opinbera út á landsbyggðina hafi ekki verið nýttir sem skyldi. Samband sunnlenskra sveitarfélaga fjallar um svipað. Og í sveitarfélögum á Reykjanesi er líka talað um að það hafi illa tekist.

Virðulegi forseti. Þarf nokkuð að segja meira um það sem hér er sagt? Þrátt fyrir góð markmið, sem ég tek undir, sem voru í áætlunum 2002–2005, þá hefur kannski mesta gagnrýnin verið á það sem stendur ekki inni, eins og aðgerðir til að efla atvinnu á landsbyggðinni og koma til móts við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og þess háttar sem ég ætla að koma betur að á eftir.

En hér kemur dómurinn um þetta. Þegar maður flettir í gegnum þessa 22 punkta áætlun þá kemur margt dálítið skondið þar fram, t.d. þar sem farið er yfir eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni, en þar fjallar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið um það sem hefur tekist að gera. Þeir bjuggu til fjögur störf í nýsköpunarmiðstöð fyrir norðan og þrjú störf á síðustu þremur árum í Byggðastofnun og tvö störf hjá Orkustofnun á Akureyri. Samtals níu störf á þessari áætlun frá 2002–2005. Virðulegi forseti. Ég tel þetta ekki nægjanlegan árangur. Það er m.a. þess vegna sem ég hef oft gagnrýnt hæstv. byggðamálaráðherra hér. En ég skal segja annað. Í þessu plaggi kemur fram að á vegum samgönguráðuneytisins voru 92 störf flutt á á land. Ég hef að vísu ekki haft tækifæri til að skilgreina þau en hika ekki við að halda því fram að þetta sé rétt. Og þá ætla ég að hæla samgönguráðuneytinu fyrir það, ásamt því að skamma hér iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Og tala svo um forsætisráðuneytið sem fékk hv. þm. Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson til að fara yfir þetta í fyrirspurnatíma. Síðan hefur ekkert gerst. Svona getum við haldið áfram. Við getum talað um flutningskostnaðinn. Þar hefur ekkert gerst. Við getum talað um athugun á búsetuskilyrðum fólks og athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna. Hvað kemur hér fram um framvinduna? „Copy and paste“, því miður, það er það sama. Hagfræðistofnun var fengin til að skila skýrslu og út kom bókin Fólk og fyrirtæki. Búið. Ekkert gert í þessu mesta hagsmunamáli landsbyggðarfyrirtækja og landsbyggðaratvinnurekstrar í sambandi við flutningskostnað. Svona get ég haldið endalaust áfram, virðulegi forseti.

En ég ætla nú ekki að dvelja lengur við það sem liðið er hér í áætlun 2002–2005. Í raun og veru má vísa í aðra þætti hvað það varðar. Ég hef líka sagt það, virðulegi forseti, að með tillögu um að flytja málefni landsbyggðar eða byggðamál úr iðnaðarráðuneytinu þá verði það ekki það olnbogabarn sem það er þar. Þegar ég skoðaði einu sinni vef iðnaðarráðuneytisins þar sem hægt var að sjá hvað viðkomandi starfsmaður ynni, þá var enginn sem vann við byggðamál. Það er að vísu búið að breyta síðunni núna, þetta kemur ekki lengur fram. Þannig var það þá.

Virðulegi forseti. Ég gagnrýni hér oft hæstv. ráðherra fyrir úrræðaleysi og dugleysi í byggðamálum, og ríkisstjórnina í heild sinni, þ.e. auðvitað ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ég sagði áðan að í áætluninni 2002–2005, og í áætlun 2006–2009, væru mörg mjög góð verkefni. Gallinn er bara sá að þau komast ekki almennilega í gang. Það er t.d. stór galli að í byggðaáætlun 2006–2009 hefur ekki verið tekið sem höfuðmarkmið það sem er í umfjöllun um áherslusvið byggðaáætlunar og kemur fram í 3. kafla hennar. Þarna kemur bara fram almennt tal, en þetta ætti að vera markmiðslýsing inni í sjálfri áætluninni og koma fram í fyrstu köflum þessara 23 punkta áætlun sem sett er fram sem byggðaáætlun núna. Síðast var hún 22 punktar en nú er kominn einn í viðbót. Þarna er fjallað um áherslusvið byggðaáætlunar og um aðgerðir í byggðaáætlunum á Norðurlöndum, farið í gegnum áætlanir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Ég mundi vilja taka þessa kafla og það sem þessar nágrannaþjóðir hafa verið að gera í byggðamálum undanfarin allt að 20 ár og setja það sem fyrstu punkta í byggðaáætlun fyrir árið 2006–2009. Hér er fjallað um hvernig nágrannar okkar hafa rekið byggðastefnu sína á undanförnum árum.

Hér er fjallað, virðulegi forseti, um bæði þrönga byggðastefnu og svo aftur annars konar byggðastefnu — hvað heitir hún nú — þar sem er rætt er um hvernig þessu er skipt niður. Þarna er t.d. talað um skattalegar aðgerðir, sem m.a. fela í sér mismun á sköttum eftir landsvæðum, t.d. mishátt tryggingagjald. Þetta eru aðgerðir sem nágrannar okkar hafa ekkert verið hræddir við að fara í. Það er rétt að láta það líka koma fram hér, virðulegi forseti, að sumt af þessu er auðvitað stutt af Eftirlitsstofnun Evrópu, ESA. Þannig að hér er ýmislegt sett fram í því fylgigagni sem kemur með. Hvers vegna er ekki farið í þá þætti sem hér koma fram um reynslu nágrannaþjóða okkar? Þar sem þeir skilgreina t.d. sérstök jaðarsvæði og koma jafnvel með aðgerðaáætlun þar inn sem er skattalegs eðlis til að hvetja til fyrirtækjastofnunar meðal annars. Ég bendi t.d. á að undir norsku áætluninni er bent á að þar eru menn ekkert hræddir við að endurgreiða háan flutningskostnað til og frá ýmsum byggðarlögum í Norður- og Vestur-Noregi.

Það hefur komið fram, virðulegi forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stoppað hæstv. byggðamálaráðherra í aðgerðum hvað þetta varðar og væri kannski ágætt að heyra hvað hv. þm. Halldór Blöndal, sem hér gengur í salinn, hv. 2. þm. Norðaust., segði um þetta vegna þess að hann hefur stundum talað um háan flutningskostnað þó hann hafi ekki viljað fara þessa leið, heldur með því að byggja svokallaða Stórasandsleið. Telur það einu aðferðina til að lækka flutningskostnað. Þetta eru Norðmennirnir ekkert hræddir við að gera. Þannig getum við haldið áfram í mörgum fleiri þáttum. Við getum t.d. lesið um það hér að menn nota tryggingagjaldið til að mismuna á jákvæðan hátt í raun og veru fyrirtækjum. (Iðnrh.: Bara að hækka það.) Af því að hæstv. ráðherra byggðamála kallar hér fram í að hækka það, þá ætla ég að snúa mér að því, virðulegi forseti, í þær fjórar mínútur sem ég á eftir.

Málið er nefnilega það að hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir aðgerðum í skattamálum lögaðila fyrirtækja á 127. löggjafarþingi. Hvað gerði hæstv. ríkisstjórn þá, sem hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, situr í? Hvað var gert þá? Jú, tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 30% í 18%. Jafnframt var tryggingagjaldið hækkað, hæstv. byggðamálaráðherra. (Gripið fram í.) Þarna var tryggingagjaldið hækkað á allan atvinnurekstur í landinu, þar með talið á landsbyggðinni, um 3 milljarða. Hvernig kom þessi breyting fram, vegna þess að hæstv. ráðherra kallaði hér fram í og biður mig um að rifja upp þessa aðgerð? Förum í skattumdæmið Vestmannaeyjar. Öll fyrirtæki í Vestmannaeyjum nutu lækkunar tekjuskattsins um 23 milljarða. En hvað gerðist með tryggingagjaldið, virðulegi forseti? Hvað gerðist með tryggingagjaldið í Vestmannaeyjum? Virðulegi forseti. Það hækkaði um 43 millj. Vegna þessara skattkerfisbreytinga borguðu fyrirtæki í Vestmannaeyjum 20 millj. kr. meira í skatt eftir þessa breytingu.

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma þökkum til hæstv. byggðamálaráðherra að minna mig á það hér að ræða um tryggingagjaldið. Vegna þess að við getum svo farið á önnur svæði. Við getum farið á Austurland. Atvinnureksturinn á Austurlandi hagnaðist við þessa skattkerfisbreytingu um 57 millj. kr. við að lækka tekjuskattinn úr 30% niður í 18%. En þeir þurftu líka að borga hærra tryggingagjald sem hæstv. byggðamálaráðherra var að minna mig á hér áðan. Hvernig kom það út? Fyrirtæki á Austurlandi þurftu að borga 89 millj. kr. meira í tryggingagjald eftir þessa skattkerfisbreytingu. Þannig að fyrirtækjarekstur á Austurlandi borgaði 32 millj. kr. meira eftir þessa breytingu.

Virðulegi forseti. Var þetta til að styrkja atvinnulíf og atvinnurekstur í Vestmannaeyjum og á Austurlandi? Það sama á reyndar við um Norðurland eystra þó hækkunin sé örlítið minni. Voru þetta aðgerðir sem áttu að efla atvinnurekstur á landsbyggðinni? Ég segi nei, þær gerðu það ekki. Það kom hins vegar best út fyrir stóru fyrirtækin hér á höfuðborgarsvæðinu sem högnuðust um rúma 2 milljarða kr. á þessum mismun, þ.e. lækkun tekjuskattanna á móti hækkuðu tryggingagjaldi. Það voru 2 milljarðar kr. sem atvinnulífið í Reykjavík og á Reykjanesi hagnaðist af þessari skattkerfisbreytingu.

Virðulegi forseti. Þetta er enn eitt dæmið um byggðamál. Vegna þess að þrátt fyrir þau gögn sem hæstv. byggðamálaráðherra leggur fram og skilar skýrslu um, þar sem ýmislegt er sett fram og vafalaust eru þar góðar áætlanir um hitt og þetta, eins og bætt fjarskipti, bættar samgöngur og allt þetta. Um það erum við öll sammála að þar eru nauðsynlegir hlutir á ferð. En það er það sem vantar í þetta sem fyrst og fremst er verið að gagnrýna. Það vantar líka, þegar verið er að fjalla um byggðamál, að fjallað sé um ýmsar aðgerðir sem gerðar eru á Alþingi og mismuna atvinnurekstri og líka íbúum landsins eftir því hvar þeir búa, eftir því hvort þeir búa á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef tekið hér dæmi um atvinnulífið. Fjölmörg dæmi má auðvitað taka um líf fólks á landsbyggðinni sem þarf sannarlega oft að bera miklu þyngri byrði en íbúar hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég sem jafnaðarmaður gagnrýni þetta fyrst og fremst vegna þess að ég tel, virðulegi forseti, um leið og ég lýk hér máli mínu vegna þess að tíminn er búinn, að byggðamál snúist um jafnræði og jafnrétti. Að við eigum að jafna lífskjör í landinu milli fólks, sama hvar það býr, og við eigum að jafna samkeppnisstöðu atvinnurekstrar, sama hvort hann er úti á landi eða hér á höfuðborgarsvæðinu.